Í Hamarkotslæk í Hafnarfirði er lítill hólmi og þar hefur fallegt álftapar komið sér upp óðali. Þar má fylgjast með karlinum bæta í hreiðurstæðið og kerlunni snúa eggjunum.
Guðmundur Fylkisson kom upp öryggismyndavél við álftahreiðrið en að hans sögn er þetta í fyrsta sinn sem álft liggur á eggjum í hólminum.
„Ég hef verið að spyrja í kringum mig og þetta er held ég í fyrsta sinn sem álft liggur á eggjum þarna. Álftin hefur hingað til ekki orpið innanbæjar hjá okkur.“
Guðmundur heldur úti Facebook-síðunni Project Henrý og hefur gert svo í 10-12 ár en hún snýst alfarið um fuglalíf. Þar birtir hann tvisvar á dag myndir og myndbönd af álftinni. Þá segir Guðmundur það næst á dagskrá að koma upp annarri myndavél og streyma beint frá hólminum svo áhugasamir geti fylgst með.
„Já, það verður streymt beint. Það á eftir að útfæra hvar streymið verður en það þarf að setja upp aðra myndavél með aðeins öðru sjónarhorni því það þarf að gæta að persónuverndarhlutanum og sjá til þess að einungis sjáist í hreiðrið.”
Algengt er að álftin liggi á eggjum sínum í 34-35 daga. Búast má við að ungarnir í hólminum komi úr eggjunum í byrjun júní en alls eru fjögur egg í álftahreiðrinu.