Andlát: Garðar Cortes

Garðar Cortes söngvari lést á sunnudaginn. Hann kom víða við …
Garðar Cortes söngvari lést á sunnudaginn. Hann kom víða við á ferli sínum, stofnaði söngskóla, Íslensku óperuna, söng inn á fjölda hljómplatna og stjórnaði kórum og hljómsveitum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Garðar Emanú­el Ax­els­son Cortes óperu­söngv­ari lést á sunnu­dag­inn, 14. maí, á 83. ald­ursári. Garðar var fædd­ur í Reykja­vík 24. sept­em­ber 1940. Hann hóf söngnám í London árið 1963 og nam þar einnig hljóm­sveit­ar- og kór­stjórn. Lauk hann prófi frá The Royal Aca­demy of Music árið 1968 og frá Wat­ford School of Music árið eft­ir.

Eft­ir heim­komu til Íslands hóf hann tón­list­ar­kennslu við Tón­list­ar­skól­ann á Seyðis­firði þar sem hann gegndi einnig skóla­stjóra­stöðu. Sam­hliða kennsl­unni starfaði hann við Þjóðleik­húsið. Garðar flutti til Reykja­vík­ur í kjöl­farið og stjórnaði ýms­um kór­um, meðal ann­ars Fóst­bræðrum, auk þess sem hann söng með Ein­söngv­arakórn­um, Ljóðakórn­um og fleiri kór­um.

Stofnaði Íslensku óper­una

Garðar hafði lengi dreymt um að stofna söng­skóla og rætt­ist sá draum­ur árið 1973 með Söng­skól­an­um í Reykja­vík þar sem hann varð skóla­stjóri frá upp­hafi og var aðsókn góð þegar frá fyrsta starfs­ári. Nutu ýms­ir þekkt­ir söngv­ar­ar leiðsagn­ar Garðars við skól­ann, svo sem Jó­hann Friðgeir Valdi­mars­son, Kol­beinn Ket­ils­son, Bjarni Thor Krist­ins­son og son­ur Garðars og nafni, Garðar Thór Cortes.

Á upp­hafs­ár­um skól­ans stofnaði Garðar einnig Íslensku óper­una árið 1979 þar sem hann var svo óperu­stjóri um tveggja ára­tuga skeið. Eins kom hann Sin­fón­íu­hljóm­sveit Reykja­vík­ur á fót um miðjan átt­unda ára­tug­inn og stofnaði um svipað leyti Kór Söng­skól­ans sem skipaður var nem­end­um skól­ans. Var söng­ur kórs­ins gef­inn út á nokkr­um fjölda hljóm­platna en hann varð síðar að Óperu­kórn­um í Reykja­vík.

Sæmd­ur fálka­orðunni árið 1990

Á ferli sín­um varð Garðar þekkt­ur í óperu­hús­um víða um lönd, svo sem í Banda­ríkj­un­um, Bretlandi og Skandi­nav­íu og stjórnaði um stund Óper­unni í Gauta­borg í Svíþjóð. Hljóm­plöt­ur með rödd hans eru þá fjölda­marg­ar og má nefna Draum um hvít jól sem tek­in var upp árið 2000, þar á meðal á þjóðhátíðardag­inn 17. júní, en Suður­lands­skjálft­inn þann dag truflaði þá upp­tök­ur.

Garðar var sæmd­ur Hinni ís­lensku fálka­orðu árið 1990 fyr­ir störf sín við tón­list­ina og hlaut Bjart­sýn­is­verðlaun Brösters fyr­ir stofn­un Íslensku óper­unn­ar á sín­um tíma. Þá var hann sæmd­ur heiður­sverðlaun­um Grím­unn­ar árið 2017 og hlaut fjölda annarra verðlauna og viður­kenn­inga.

Garðar Cortes læt­ur eft­ir sig fjög­ur börn og níu barna­börn. Eft­ir­lif­andi eig­in­kona hans er Krystyna Maria Blas­iak Cortes.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert