Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði í dag leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu með ávarpi til viðstaddra. Þar lagði hún línurnar fyrir það sem rætt verður á fundinum.
Katrín segir að markmið fundarins séu þrjú; að ítreka stuðning við Úkraínu, að endurnýja skuldbindingar er varða mannréttindi og að takast á við krefjandi verkefni um allan heim, „með því að standa fast við okkar gildi.“
„Það er mér sönn ánægja og forréttindi að bjóða ykkur velkomin til Íslands,“ sagði hún í upphafi og bauð svo alla velkomna á frönsku.
Hún hélt áfram á frönsku og sagði að Evrópuráðið hafi frá stofnun þess verið leiðbeinandi fyrir aðilaríki „til þess að ná framförum í mannréttindum, lýðræði og réttarríki“.
Hún sagði að ef gildi um jafnrétti handa öllum væru enn þann dag í dag talin róttækar hugmyndir „af sumum“, en að það sé grundvöllur fyrir mannréttindasáttmálann.
„Við erum ekki saman komin hér í fagnaðarskyni, heldur í skugga stríðs. Árás Rússa á Úkraínu er alvarlegasta árás á frið og öryggi í Evrópu frá seinni heimstyrjöld; auk gríðarmikils mannfalls hefur hún leitt til blóðbaðs, nauðgana, og morða á óbreyttum borgurum.“
Hún ávarpaði síðan Úkraínumenn og Selenskí, forseta Úkraínu, og sagði: „Við berum gífurlega mikla virðingu fyrir ykkar ákveðni til þess að berjast á móti. Við munum höldum áfram að standa með ykkur,“ sagði hún og kallaði einnig á Rússland til þess draga hersveitir sínar úr Úkraínu „sem sín fyrstu skref til þess að binda enda á stríðið.“
„Við krefjumst einnig ábyrgðar og réttmæts friðar. Fórnarlömb stríðsins hafa þann rétt að á þau sé hlustað og að þau falli ekki í gleymskunnar dá.“
„Þetta tilgangslausa stríð í heimsálfunni okkar fer gegn öllum þeim gildum sem við sameinuðum okkur um við stofnun þessa ráðs; það er alvarleg árás gegn þeim gildum sem gera Evrópu að einhverju stærra en bara heimsálfu, heldur að sameiginlegum málstað.“
„Á undanförnum árum höfum við orðið vitni að pólitískum tilraunum til þess að grafa undan grunngildum lýðræðisins, kollvarpa starfsháttum þess og veikja réttarríkið,“ sagði hún og bætti við lýðræði hafi verið undir miklu álagi vegna ýmiss konar stjórnarfarslegra átaka.
„Við stöndum frammi fyrir miklum og ofbeldisfullum árásum gegn réttindum kvenna og frelsi, jafnrétti kynjanna og réttindum hinsegin fólks,“ segir hún. „Við megum ekki gleyma því að hugmyndin að lýðræði sem liggur að baki mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu er fyrir alla,“ segir hún.
Hugmyndin segi að lýðræðið krefjist þess að hugað sé að réttindum og hagsmunum allra, „líka þeirra sem eru viðkvæmastir fyrir brotum á grundvallarréttindum sínum.“
„Hugtakið „mannréttindi handa öllum“ heldur áfram að vera umdeilt– og án mótspyrnu geta þessi seinteknu réttindi horfið á svipstundu, eða visnað í þögn. Það er einnig áminnig um að lýðræðislega stjórnmálakerfið er ekki sjálfsagt; það getur aðeins lifað af ef það er inngróið í samfélag sem leyfir því að dafna.“
Katrín sagði leiðtogafundinn hafa þrjú meginmarkmið. Hið fyrsta sé að ítreka stuðning við Úkraínu, „svo hægt sé að móta markvissar aðgerðir til þess láta ábyrgð á stríðsglæpum og styrkja hlutverk Evrópuráðsins sem leiðandi mannréttindasamtök.“
Annað meginmarkmiðið sé að endurnýja skuldbindingu til „þeirra lýðræðislegu mannréttindagilda sem samfélög okkar byggja á og sem við verðum að hlúa að og vernda“.
„Og að lokum, með því að standa fast við okkar gildi reynum við að takast á við krefjandi verkefni um allan heim. Loftslagsváin og líffræðilegur fjölbreytileiki hefur áhrif á alla heimshluta og hækkandi hitastig kyndir undir náttúruhamfarir, fæðu- og vatnsleysi, efnahagstruflanir og styrjaldir,“ sagði hún.
„Stighækkandi þróun gervigreindar vekur þungar spurningar um skaðleg en einnig gagnleg áhrif hennar – spurningar um eðli þekkingar, áhrif hennar á upplýsingar og að lokum áhrif hennar á lýðræðið.“
Hún segir þeim bera sú skylda að gera fundinn að þýðingarmiklu verkefni. „Við erum hér til þess að ræða vandamál þar sem þörf er á áríðandi aðgerðum– leyfum okkur að gera sem mest úr þessu tækifæri.“
„Að lokum vona ég að leiðtogafundarins verði minnst sem viðburðar þar sem leiðtogar Evrópu sýndu samstöðu með Úkraínu“ sagði Katrín. Hún kveðst einnig vona að fundarins verði minnst sem vettvangs til þess að „ítreka grunngildi á stríðstímum og afturhaldstíma lýðræðis“.
„Til þess að tryggja sameiginlegan málstað, Evrópu, munum við geta tekist á við þær gríðarstóru áskoranir sem eru framundan,“ sagði hún að lokum lýsti því svo yfir að leiðtogafundur Reykjavíkur í Evrópuráðinu væri formlega hafinn.