„Evrópa hefur beðið samstöðu leiðtoga“

Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, var í senn þakklátur og hvetjandi …
Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, var í senn þakklátur og hvetjandi er hann ávarpaði gesti í gegn­um fjar­fund­ar­búnað. AFP/Halldor Kolbeins

„Evrópa hefur beðið 100% samstöðu leiðtoga með 100% árangri til verndar álfunni. Við erum að áorka það í dag,“ sagði Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, í ávarpi sínu á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Hörpu.

Þakkaði hann þeim ríkjum sem hafa heiðarlega innleitt refsiaðgerðir gegn Rússum í sínar stefnur og sagði 100% árangur refsiaðgerða aðeins tryggða ef heiðarleiki verði hafður í fyrirrúmi.

Enginn friður án réttlætis

Forsetinn þakkaði Evrópuráðinu og hverjum og einum fulltrúa þess persónulega fyrir þá ákvörðun að ræða mögu­lega tjóna­skrá Evr­ópuráðsins vegna stríðsins í Úkraínu og leiðir til að kalla rúss­nesk stjórn­völd til ábyrgðar. Hann sagði mikilvægt að stofna bótakerfi sem muni sýna heiminum að ekki sé þess virði að beita árásum.

Þá kallaði Selenskí eftir sérstökum dómstól vegna stríðsglæpa Rússa og að þeir ábyrgu myndu sannarlega sæta ábyrgð og sagðist fullviss um að sú niðurstaða myndi nást. Hann sagði friðaráætlun Úkraínu byggja á 100% réttlæti og að það verði enginn áreiðanlegur friður án réttlætis.

Meginregla álfunnar um alla framtíð

Þá ávarpaði Selenskí Úkraínu, alla Evrópu, alla sem saman eru komnir á leiðtogafundinum og alla aðra sem hafa hjálpað Úkraínumönnum.

„Við erum Evrópubúar og erum frjáls. Við erum Evrópubúar og erum friðarsinnuð. Við erum Evrópubúar og setjum 100% afl í að vernda okkar gildi og lífstíl.

Höfum það sem meginreglu álfunnar um alla framtíð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert