Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði Íslendingum hafa tekist vel upp í forystu Evrópuráðsins þegar hún tók til máls á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag að loknum stuttum fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Ísland hefur sinnt formennsku í Evrópuráðinu síðasta hálfa árið og lýkur í lok leiðtogafundarins í Reykjavík sem stendur yfir í Hörpu.
Von der Leyen hrósaði einnig Íslendingum fyrir viðhorf og áætlanir stjórnvalda í loftslagsmálum.
Varðandi leiðtogafundinn sagði hún fundinn vera haldinn á mikilvægum tímapunkti í ljósi stríðsins í Úkraínu.
„Árásir Rússa á Úkraínu vekja upp grundvallarspurningar um lýðræði, lög og reglu og mannréttindi,“ sagði Ursula von der Leyen.
Þakkaði hún Katrínu og Íslendingum fyrir að leggja áherslu á réttlæti fyrir Úkraínumenn í formannstíð Íslendinga í Evrópuráðinu og beina sjónum að ábyrgð Rússa varðandi það tjón sem orðið hefur í Úkraínu. Rússar séu ábyrgir fyrir því með innrás í nágrannaríki.
Von der Leyen gat þess einnig að Íslendingar hafi stutt myndarlega við bakið á Úkraínumönnum með alls kyns aðstoð og móttöku flóttamanna sem séu nærri þrjú þúsund talsins.
Katrín sagði EES-samninginn hafa verið til umræðu og á næsta ári væru þrjátíu ár frá því hann öðlaðist gildi. Þá verði komið á fundum á milli Íslendinga og Evrópusambandsins til að ræða samninginn.