Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari þarf ekki að endurgreiða ofgreidd laun samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í gær í máli sem hún höfðaði gegn íslenska ríkinu vegna kröfu Fjársýslu ríkisins um endurgreiðslu á ofgreiddum launum.
Málið snerist um ofgreidd laun æðstu embættismanna þjóðarinnar en fjársýslan greindi frá því í júlí árið 2022 að 260 af æðstu embættismönnum landsins hefðu fengið greidd of há laun, eða því sem nam um 105 milljónum króna samtals. Fjármálaráðuneytið krafði embættismennina um endurgreiðslu sem átti að fara fram í áföngum á tólf mánuðum.
Meðal þeirra sem fengu ofgreidd laun voru forsetinn, ráðherrar, þingmenn, dómarar, saksóknarar, lögreglustjórar, ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og ríkissáttasemjari.
Í dómnum kemur fram að héraðsdómari hafi krafist ógildingar á þremur ákvörðunum íslenska ríkisins er lutu að breyttri útreikningsaðferð launabreytinga og endurkröfu ofgreiddra launa. Dómurinn taldi ákvarðanirnar vera stjórnvaldsákvarðanir en ekki hefði verið gætt málsmeðferðarreglna laganna. Þá hefði stefnda hvorki verið gert viðvart um að málið væri til meðferðar né notið andmælaréttar. Talið var að umræddir annmarkar væru verulegir og af þeim sökum var fallist á kröfur stefnanda um ógildingu umræddra ákvarðana.
Í Facebookfærslu fyrir tæpu ári síðan talaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um að þegar kæmi að æðstu embættismönnum ríkisins, alþingismönnum, dómurum, seðlabankastjórum og saksóknurum ætti ekki að þurfa opinberar skeytasendingar til að útskýra að rétt skuli vera rétt. Þá sagði Bjarni einnig í færslunni að það hefði verið óþolandi að þetta hefði þurft að gerast en við því þyrfti að bregðast. Embættismennirnir byrjuðu að endurgreiða launin í september í fyrra.