Isavia fær 7,5 milljarða lán

Stefán Jón Friðriksson, lánastjóri NIB, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Stefán Jón Friðriksson, lánastjóri NIB, og Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. Ljósmynd/Aðsend

Isavia ohf. og Norræni fjárfestingarbankinn (NIB) undirrituðu í dag samning um lán til tíu ára að fjárhæð 50 milljóna evra, eða sem nemur jafnvirði um 7,5 milljörðum íslenskra króna, vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, sér í lagi við austurálmu flugstöðvarinnar.

Nýja byggingin mun bæta 23 þúsund fermetrum við núverandi flugstöð og þannig stækka hana um 30%. Hún verður að hluta tekin í notkun fyrir lok árs 2023 en framkvæmdum verður að fullu lokið árið 2024.

Vilja bæta þjónustu við notendur flugvallarins

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir í fréttatilkynningu sem send var út í dag að félagið hafi sett sér metnaðarfull en um leið afmörkuð og skýr markmið í umhverfismálum og fylgi ítarlegri aðgerðaráætlun til að koma sjálfbærnistefnu Isavia í framkvæmd.

Þá segir hann verkefnin sem fram undan séu í framkvæmdunum mörg og því sé mikilvægt að fá NIB að borðinu.

„Við erum að bæta við flugstöðvarbygginguna og framkvæma á akstursbrautum, allt til að bæta þjónustuna við notendur Keflavíkurflugvallar.“

Keflavíkurflugvöllur leikur mikilvægt hlutverk

André Küüsvek, forstjóri og stjórnarformaður NIB, segir að lánasamningurinn við Isavia sýni fram á mikilvægi langtíma fjárfestingar í fluggeiranum til að styðja við efnahagsvöxt og flugtengingar.

„Keflavíkurflugvöllur er mikilvæg tengistöð fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og þess er vænst að hún leiki mikilvægt hlutverk í efnahag landsins,“ segir Küüsvek í tilkynningunni.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu aðildarlandanna átta: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháens, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka