Amnesty International kallar eftir því í fréttatilkynningu sem samtökin sendu frá sér í gær að gripið verði til aðgerða í tilefni af leiðtogafundi Evrópuráðsins sem fram fer í dag og á morgun í Hörpu.
Samtökin leggja áherslur á atriði sem fjallað hefur verið um seinustu vikur en þau snúa að sterkari vernd borgaralegra réttinda, verndun og styrkingu óháðra dómskerfa, viðnámi við bakslagi í jafnrétti kynjanna, nýju framtaki til að auka áhrif Evrópuráðsins og að gerendur stríðsglæpa verði dregnir fyrir sjálfstæða, hlutlausa og sanngjarna dómstóla.
Þá leggur Amnesty International til að kerfi Evrópuráðsins verði bætt og gert skilvirkara og áhrifaríkara og að leiðtogafundurinn sé tækifæri fyrir Evrópuráðið til að stíga skref í átt að því að draga Rússland til ábyrgðar vegna stríðsins og hinna mörgu brota á alþjóðlegum mannúðarlögum og mannréttindum í stríðsátökunum.
Þá segir jafnframt í tilkynningunni að aðildarríkin ættu að nýta leiðtogafundinn í að setja í forgang baráttuna gegn skerðingu borgaralegs samfélags, verndun og styrkingu óháðra og hlutlausra dómstóla og berjast gegn bakslagi í réttindum kvenna og hinsegin fólks.
Að undanskildum réttinum til hreins, heilnæms og sjálfbærs umhverfis ætti leiðtogafundurinn að leggja minni áherslu á að koma á fót nýjum stofnunum og meiri áherslu á að gera núverandi kerfi skilvirkari og öflugri.
Síðast en ekki síst ætti Evrópuráðið í formennskutíð Íslands að nýta það mikilvæga tækifæri sem leiðtogafundur Evrópuráðsins felur í sér og þrýsta á aðildarríki að efla vernd mannréttinda í álfunni.