Andrés Magnússon
Öryggisráðstafanir í kringum Hörpu, þar sem leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í dag, eru gríðarlegar. Svæðið allt hefur verið girt af og engin leið að húsinu nema um aðreinina frá Sæbraut eða Edition hóteli. Öðru hverju drífur að bíla með blikkandi ljósum, lögregluþjónar vopnaðir vélbyssum eru á hverju strái, bæði í hópum og á stangli.
Innan dyra í Hörpu er starfsfólk enn í óða önn að gera allt tilbúið fyrir fundinn, skreyta og gera fínt. Helstu salir eru orðnir mjög glæsilegir að sjá með fánaborgum og táknum fundarins, Evrópuráðsins og Íslands.
Öryggisráðstafanir eru ekki minni inni í Hörpu en utandyra. Mjög ströng leit er gerð á öllum, sem fara inn í húsið, áþekk því sem fólk þekkir frá flugvöllum, en af mun meiri samviskusemi. Um gangana á öllum hæðum stikar lögregluvörður, en inni í salarkynnunum Hörpu þar sem hinn eiginlegi fundur fer fram er allt skoðað í krók og kring með málmleitartækjum, sprengjuleitarhundi og erlendum sérfræðingum, sem þó fer ekki mikið fyrir.
Þetta er í aðdraganda fundarins, sem þó verður ekki settur fyrr en í lok dags. Öryggisráðstafanirnar munu ekki minnka eftir því sem á líður daginn og þess verður fólk einnig vart í Miðbænum utan við hin lokuðu svæði.