Mikilvægt að almenningur sé var um sig

Guðmund­ur Arn­ar Sig­munds­son, for­stjóri netör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar CERT-IS.
Guðmund­ur Arn­ar Sig­munds­son, for­stjóri netör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar CERT-IS. Samsett mynd

„Það er ágætt ef almenningur geti verið var um sig þegar þeir eru að auðkenna sig núna – að fólk sé alveg 100% viss um að það sé að auðkenna sig á réttum stöðum,“ segir Guðmund­ur Arn­ar Sig­munds­son, for­stjóri netör­ygg­is­sveit­ar­inn­ar CERT-IS, í samtali við mbl.is.

Álagsárásir voru gerðar á ýmsar íslenskar vefsíður um klukkan níu í morgun. Rússneski netþrjótahópurinn NoName057 lýsti yfir ábyrgð á árásunum. 

„Stóri hýsingaraðilinn sem varð fyrir árásinni í morgun er kominn upp aftur,“ segir Guðmundur og bætir við að verið sé að vinna í að koma öllum í fullkomið rekstarhæft form.

Tilkomin vegna leiðtogafundarins 

„Núna erum við að skoða mögulega hættu í kringum auðkenningarferlin. Þetta er kannski fyrsta snertingin sem gæti snert almenning í heild sinni,“ segir hann en inn­brot­stilraun­ir (e. intrusi­on) í kerfi hafa verið gerðar í kjöl­far dreifðra álags­árása.

„Það sem er mikilvægt fyrir almenning er að ef fólk fær meldingu um að það sé verið að auðkenna það með rafrænum skilríkjum – að það sé algjörlega viss um að það hafi í fyrsta lagi verið að biðja um að komast inn í eitthvað sem þarf að auðkenna sig, og að auðkenningin sé örugglega frá réttum aðila.“

Guðmundur bætir við að enn sé margt óljóst við árásina í morgun en ljóst er að hana er hægt að rekja til leiðtogafundar Evrópuráðsins.

Vefur Alþingis kominn í loftið 

Vefur Alþingis lá einna lengst niðri og þá var einnig net- og símalaust á þinginu. Vefurinn er nú kominn í loftið en er hægvirkur.

Guðmundur segir að um álagsárás hafi verið að ræða. 

„Þetta [net- og símaleysið] gerist ef að sjálfvirku varnirnar grípa ekki svona álag. Þá þarf alltaf að bregðast handvirkt við. Það tekur alltaf smá tíma. Þannig að tengslin eru sannarlega þessi sömu.“

Guðmundur segir að lokum mikilvægt að allir séu í startholunum fram eftir degi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert