Urður Egilsdóttir
Netárásir voru gerðar á ýmsar íslenskar vefsíður fyrir rúmlega hálftíma síðan.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS, segir í samtali við mbl.is að verið sé að vinna að því að fá staðfestingu á hvað sé í gangi.
„Það eru árásir í gangi á mismunandi aðila á Íslandi,“ segir hann og bætir við að óvíst sé hvort að um sé að ræða svokallaðar álagsárásir (DDOS). Þá er mikilli umferð beint að vef í þeim tilgangi að lama kerfin og gera óvirk til skamms tíma, án þess þó að þrjótarnir komist yfir gögn eða skemmi kerfi.
„Við erum í greiningarvinnu... Staðan er sú að rekstararaðilar þessara hýsingaraðila eru á fullu núna að koma öllu á lappir aftur,“ segir Guðmundur og bætir við að meðal annars hefur vefur CERT-IS dottið niður.
Þá gengur erfiðlega að komast inn á vef Stjórnarráðsins, Alþingis, Dómstólasýslunnar, Fjarskiptastofu og Umhverfisstofnunar.
Náið samstarf hefur verið undanfarnar vikur á milli ríkislögreglustjóraembættisins og CERT-IS til að undirbúa og skipuleggja viðbrögð við hættu á netárásum í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins sem hefst í dag.