Atli Steinn Guðmundsson
„Eigum við þá ekki að segja að menn taki því af alvöru að þetta sé fundur sem skiptir máli og það sem út úr honum kemur,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is um netárás á íslensk vefsvæði, þar á meðal vef Alþingis sem lá niðri, að minnsta kosti á meðan þetta spjall fór fram.
„Netið hjá okkur liggur niðri, Alþingi.is, og þá á skrifstofunni líka svo maður kemst ekki á netið nema í símanum,“ segir Bjarni af netleysinu sem freistandi er að tengja fundarsetu Evrópuráðsleiðtoga í Reykjavík.
Segir hann netárás vegna fundarins, sé svo, undirstrika mikilvægi samkomunnar „og þeirrar samstöðu sem þar verður sýnd, ekki síst í málefnum Úkraínu. Það er auðvelt að álykta að þarna standi að baki einhverjir sem eru hliðhollir málstað Rússa í stríðinu, slíkt kemur auðvitað vel til greina, og ég lít þá bara á það sem þarna séu öfl sem eru hrædd við þennan fund og það sem hann stendur fyrir,“ segir þingmaðurinn.
Var Bjarna ekki kunnugt um stöðu mála þegar viðtalið var tekið en vænti þess að tæknimenn þingsins stumruðu þar yfir netmálum.