Úkraína og ólöglegir fólksflutningar áherslumál Sunak

Sunak ræðir við fréttamenn í Hörpu.
Sunak ræðir við fréttamenn í Hörpu. AFP/Alastair Grant

Stuðningur við Úkraínu og ólöglegir fólksflutningar eru þau mál sem Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hyggst ræða á leiðtogafundi Evrópuráðsins í dag. 

Þetta kemur fram í viðtali hans við blaðamann Sky News sem sýnt var frá í beinni á miðlinum fyrir skömmu. 

„Það er frábært að vera hérna á Íslandi í dag á fundi Evrópuráðsins. Þetta er ráð sem Winston Curchill tók þátt í að stofna og hefur staðið vörð um frelsi og lýðræði í rúm 70 ár,“ sagði Sunak.

„Í dag verða tvö stór mál á minni dagskrá. Það fyrsta er Úkraína en í kjölfar fundar míns með forseta Selenskí mun ég funda með fleiri ríkjum og sjá til þess að við höldum áfram að styðja Úkraínu. Veita þeim þann stuðning sem þau þurfa á að halda til að verja sig gegn Rússum. Einnig þurfum við að byrja að huga að öryggisatriðum til lengri tíma litið.“

Seinna málið sem Sunak hyggst leggja áherslu á í dag eru ólöglegir fólksflutningar.

„Ég mun ræða við evrópskar stofnanir og önnur ríki um hvernig við munum eiga við þetta mál. Þetta er sameiginlegt vandamál. Mörg ríki Evrópu eru að ganga í gegnum það sem við erum að gera heima fyrir. Ég vil vinna með öðrum til þess að leysa þessi vandamál,“ segir breski forsætisráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert