Vanmat á aðstæðum og reynsluleysi varð til þess að slöngubát hvolfdi í Víkurfjöru í nóvember í fyrra. Ekki var um formlega æfingu að ræða heldur var sölumaður bátsins að kynna hann fyrir björgunarsveitarfólki. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var á vef þeirra í gær.
Tveir fóru um borð í bátinn ásamt stjórnanda en þrír fylgdust með í fjörunni. Við rannsókn á myndbandsupptökum af óhappinu sást að fólkið hafði einungis verið á siglingu í eina mínútu og 10 sekúndur þegar bátnum hvolfdi. Allir þrír bátsverjarnir féllu útbyrðis en komust af sjálfsdáðum í land.
Í skýrslunni kemur fram að SeaRanger sé slöngubátur með „jet“ mótor. Báturinn er harðbotna og situr stjórnandi bátsins í miðjunni. Bátar af þessari gerð hafa ekki verið notaðir hér á landi svo vitað sé.
Ekki var hugað að því að hafa búnað tiltækan færi eitthvað úrskeiðis en björgunarsveitarmenn voru í sjóbjörgunarbúningum sem í ljós kom að láku þegar þeir lentu í sjónum.
Björgunarsveitarmaður lenti undir bátnum þegar honum hvolfdi og fékk högg á höfuðið og öxlina. Eftir fyrirgrennslan nefndarinnar erlendis, þar sem bátar af þessari tegund eru notaðir, kom í ljós að mikillar þjálfunar er krafist við stjórnun þeirra. Var það lokaniðurstaða nefndarinnar að ástæða þess að bátnum hvolfdi var vanmat á aðstæðum auk þess sem stjórnun slíkra báta krefðist mikillar þjálfunar.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.