„Við ættum að passa upp á hvalina“

Hópur fólks var í dag saman kominn á Arnarhóli í þeim tilgangi að vekja athygli á og mótmæla hvalveiðum. 

Blaðamaður mbl.is náði tali af Jojo Mehta, einn af stofnendum samtakanna Stop Ecoside. Hún kom hingað til lands til þess að taka þátt í viðburði á vegum Háskóla Íslands og Norræna hússins, er snýst um lagaumgjörðina í kringum svokölluð vistmorð. 

„Það vildi svo skemmtilega til að þessi mótmæli voru að eiga sér stað samtímis. Það þykir mér fullkomlega viðeigandi, enda snýst starf mitt að öllu leyti um það að vernda náttúruna og lykildýrategundir.“

Vilja að leiðtogarnir ræði skemmdir gegn náttúrunni

Spurð hvert markmiðið sé með mótmælunum segir hún það vera að koma í veg fyrir áframhaldandi hvalveiðar. Hún bendir á að hvaleiðar hafi nú þegar verið bannaðar víðast hvar í heiminum, en þær tíðkist enn á stöku stað. Hugmyndin sé að vekja athygli á því og stemma stigu við að slíkar veiðar verði áfram látnar viðgangast.

„Við viljum ekki eingöngu að leiðtogarnir ræði hvalveiðarnar, heldur einnig þau skemmdarverk sem við erum að vinna gegn náttúrunni í víðara samhengi.“

Jojo kveðst vilja að sett verði alþjóðarefsilög, sem geri vistmorð að alþjóðaglæp. Hún bendir á að umræða þess efnis sé nú þegar hafin á Íslandi, það hafi verið rætt á þinginu og forsætisráðherra hér á landi hafi nú þegar látið í ljós ósk sína um að slík lagasetning verði rædd á alþjóðlegum vettvangi, til að mynda í Evrópuráðinu og á Evrópuþinginu.

Hvalirnir mikilvægir fyrir vistkerfið

Langvarandi hefði og djúp meitlun í þjóðarsálina og íslenska menningu, telur hún mögulega skýringu þess að hvalveiðar viðgangist enn á Íslandi. Hún bendir þó á að heimurinn sé að breytast  og við verðum að átta okkur á því hve mikilvæg þessi dýrategund sé til þess að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika og lífvænlegt vistkerfi fyrir okkur öll. 

„Við ættum að passa upp á hvalina, bæði því þeir eru greindar skepnur í útrýmingarhættu, og vegna þess að þeir þjóna mikilvægu hlutverki í vistkerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert