Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafa rætt um fyrirhugaða löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir og áhrif þeirra á íslensk flugfélög. Fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra að tekið verði tillit til séríslenskra aðstæðna og að Ísland muni hljóta undanþágur.
Fundur von der Leyen og Katrínar fór fram í Ráðherrabústaðnum nú á fjórða tímanum.
Aðspurð um málið, sagði von der Leyen að ESB sýndi Íslendingum skilning í málinu og að sameiginleg lausn hefði fundist, en tók jafnframt fram að málið væri enn í vinnslu og ætti eftir að ræða og útfæra betur. Fram kom að Ísland muni fá, árin 2025 og 2026, auknar heimildir til að losa koltvísýring í flugi.
Katrín tók í svipaðan streng og sagði að það ætti eftir að ræða málið nánar innan ríkisstjórnarinnar og á Alþingi, en ljóst sé að sameiginleg lending hefði náðst þar sem tillti væri tekið til íslenskra aðstæðna. Benti Katrín m.a. á að von der Leyen hefði komið til Íslands með flugi.
Þórdís Kolbrún Reykjfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í samtali við mbl.is í mars að fyrirhuguð löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir væri stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES-samningsins. Utanríkisþjónustan hefði farið í fordæmalaust átak til að reyna að hafa áhrif á löggjöf ESB.