Karlotta Líf Sumarliðadóttir
„Í gær var mjög rólegt og þetta minnti mann bara svolítið á Covid-tímann, en vonandi verður eitthvað meira að gera í dag,“ segir Hrafnhildur Ásgeirsdóttir, pylsusali á Bæjarins beztu, í samtali við mbl.is.
„Kannski koma einhverjir leiðtogar, ég veit það ekki. Það kom allavega enginn í gær til mín,“ segir hún en vakt Hrafnhildar lauk klukkan 16 í gær.
Hún segir að umstangið í kringum leiðtogafundinn í Hörpu hafi ekki beint komið henni á óvart.
„Maður vissi að það yrði mikið af götulokunum, en það er skrýtið að sjá lögregluna með byssu. Maður er ekki vanur því.“
Hún segir að það hafi gengið ágætlega fyrir starfsfólk pylsuvagnsins að mæta til vinnu. Hrafnhildur lagði bílnum sínum við Hallgrímskirkju og rölti niður að pylsuvagninum við Tryggvagötu. Þá segir hún að það hafi verið auðveldara en hún bjóst við að komast heim til sín í gær.
Hún segir að lokum að dagurinn í dag horfi ágætlega við henni, og líkt og áður sagði, vonast Hrafnhildur eftir meiri aðsókn.
Julie Hasseris tísti mynd af pylsuvagninum og sagði að það væri gott að vita að lögreglan hefði eftirlit með öllum menningarverðmætum borgarinnar.
Good to know the police are looking after all the cultural treasures in downtown Reykjavík. pic.twitter.com/ATnH71TD0Y
— Julie Hasseris (@JulieHasseris) May 17, 2023