Yfirlýsingar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær um að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands í fyrirhugaðri löggjöf ESB um losunarheimildir á flugferðir koma í framhaldi af áhyggjum Íslendinga um að samkeppnishæfni landsins muni skaðast við slíkar aðgerðir. Annars vegar vegna hagsmuna Íslendinga í ferðaþjónustu og hins vegar í útflutningi.
Tillögur um losunarheimildir á flug, og krafa um vistvænt eldsneyti á flugvélar, eru hluti af mun stærri aðgerðapakka ESB um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að a.m.k. 55% árið 2030. Tveir liðir snúa að flugrekstri. Annars vegar að flugvélar taki upp umhverfisvænna eldsneyti með íblöndunarefnum og hins vegar að teknar verði upp losunarheimildir eða losunarskattur þar sem skattgreiðslur vaxa í samræmi við lengd flugleggsins. Losunarskatturinn mun verða settur á í skrefum og kominn í fulla virkni árið 2027.
Morgunblaðið hafði samband við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, í gærkvöldi og spurði hann hvort ummæli Ursulu von der Leyen og Katrínar hefðu komið á óvart.
„Íslensk stjórnvöld hafa unnið mjög ötullega að því að koma sérstöðu Íslands í þessu máli á framfæri. Eins og ég hef sagt þá er ekki verið að biðja um undanþágur heldur að byrðunum sé jafnt skipt. Það er greinilegt að Ursula von der Leyen og fólkið í Brussel er sammála því eftir að hafa skoðað málið. Fram kom í dag að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands. Stefnt er að því að allt flug frá EES og jafnvel til EES líka falli undir kerfið frá og með 2027. Þá jafnast leikurinn. Ef það gerist ekki þá gerum við auðvitað ráð fyrir því að áfram verði tekið tillit til sérstöðu Íslands,“ segir Bogi en tekur skýrt fram að hann þekki ekki smáatriðin í því samkomulagi sem nú virðist vera unnið að. Honum sé hins vegar vel kunnugt um vinnu íslenskra stjórnvalda vegna málsins og Icelandair hafi stutt við hana.