„Hann hefur greinilega ekki gefið sér mikinn tíma, hann tekur tvö hljóðfæri sem eru í smíðum,“ segir Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður í samtali við mbl.is en brotist var inn í verkstæði hans við Brautarholtið í nótt og þýfið undarlega valið að sögn Gunnars.
„Hann þurfti nú að klofa yfir rándýra gítara til að ná í Pink Floyd-gítarinn í glugganum, það er ýmislegt hérna inni sem hefði verið hægt að taka frekar,“ segir gítarsmiðurinn en sá sem að verki var braut rúðu í útihurð verkstæðisins og opnaði með því að teygja sig inn fyrir og snúa læsingarsnerlinum.
„Þessi hljóðfæri [sem þjófurinn tók] eru mjög sérstök, annað er með svona Stratocaster Paisley-mynstri sem er sprautað á, en hitt, sem ég kalla Mjölni, var með Pink Floyd, veggnum, framan á og áletrun Pink Floyd. Hvorugur gítarinn var tilbúinn og það verður mjög erfitt fyrir hann ef hann ætlar að losna við þessa gítara, það eru ekki til neinir svona gítarar hérna á landinu,“ segir Gunnar.
Undrast gítarsmiðurinn háttsemi þjófsins mjög, „hann fer hérna aðeins inn á verkstæðið og þegar hann tekur Paisley-gítarinn niður þá hrynja pick-up-arnir úr gítarnum og stóllinn, því þetta var ekki fest í hann. Svo rýkur hann í burtu héðan af verkstæðinu bara með gítarskel. Þetta er varla gítar, þetta er bara útlitið,“ heldur hann áfram.
Ekki er þar með sagt að þýfið sé eitthvert rusl, hvort tveggja rándýrir gítarar þótt smíðinni hafi ekki verið lokið, en Gunnar undrast engu að síður val þjófsins, „ég var með nokkra gítara hér í pokum, fullkláraða, og alla vega þrjá eða fjóra fullkláraða í glugganum“, segir gítarsmiðurinn sem hvort tveggja smíðar strengjahljóðfærin frá grunni og býður viðgerðaþjónustu á verkstæði sínu.
„Ég held líka úti námskeiði í gítarsmíði í Tækniskólanum sem ég er búinn að vera með í sautján ár,“ segir Gunnar sem hefur verið með starfsemi sína í Brautarholtinu í áratug en var áður á Laugalæknum.
Var þjófurinn á ferð einhvern tímann í nótt og lögregla mætt á staðinn þegar Gunnar kom á vettvang í morgun. „Ég hef nú ekki verið mikið á verkstæðinu, ég er að jafna mig eftir erfið veikindi. Ég var að dunda hérna aðeins í gær og fer um fimmleytið og þetta uppgötvaðist bara klukkan átta í morgun. Lögreglan var á staðnum þegar ég kom, nágrannar mínir hérna á rafvirkjaverkstæðinu við hliðina sáu þetta og hringdu á lögregluna og það var bara allt opið hérna, þannig lagað,“ segir Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmiður að lokum.
Þeir sem kunna að luma á vitneskju um gítara Gunnars, sjá meðfylgjandi mynd, eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.