Höfðu ekki hugmynd um leiðtogafundinn

Caroline Schmidt og Jason Kovacs glöð í bragði á Laugaveginum.
Caroline Schmidt og Jason Kovacs glöð í bragði á Laugaveginum. mbl.is/Karlotta

Hjónin Caroline Schmidt og Jason Kovacs frá Bandaríkjunum höfðu ekki hugmynd um að leiðtogafundur Evrópuráðsins yrði haldinn í Reykjavík fyrr en þau komu hingað til lands.

Í samtali við blaðamann mbl.is á Laugaveginum sögðu þau mannskapinn sem sér um öryggismálin og lokun svæða í miðborginni hafa verið kurteisan og að þau gætu gengið nokkuð óáreitt um helstu ferðamannastaðina. Meðal annars gátu þau skoðað Sólfarið við Sæbrautina.

„Þau hafa reynt að loka eins fáum svæðum í borginni og mögulegt er, sem ég er ánægð með. Þetta hefur ekkert haft alltof mikil áhrif á ferðalagið okkar,” sagði Schmidt.

Finnst þér leiðtogafundurinn áhugaverður?

„Já, en ég veit ekki mikið um hann. Við vissum ekki að hann yrði hérna fyrr en við komum,” svaraði hún og sagði þau hjónin ekki hafa séð neina þjóðarleiðtoga á ferli svo þau vissu til.

Þau ætla að dvelja hér á landi í eina viku og fljúga heim um næstu helgi. Hingað til hafa þau heillast af landi og þjóð. „Við höfum aðallega haldið til í Reykjavík. Við ætlum að fara gullna hringinn, sjá Geysi og fara á eldgosasýningu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert