Komst á hreyfingu á lokametrunum fyrir fundinn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðræður Íslands og Evrópusambandsins um undanþágur Íslands vegna fyrirhugaðrar löggjafar ESB um losunarheimildir í flugi komust á mikla hreyfingu á lokametrunum fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem nú fer fram í Hörpu.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hún segir málið nú komið á allt annan stað en það var fyrir stuttu síðan. 

Í gær greindu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að taka ætti mið af sérstöðu Íslands í fyrirhugaðri löggjöf sambandsins um losunarheimildir í flugi.

Höfðu Íslendingar áður lýst miklum áhyggjum af þessari löggjöf og hafði Þórdís sagt að þetta væri stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES-samningsins á sínum tíma. 

Enn eftir að hnýta lausa hnúta en ánægð með uppleggið

„Við lögðum upp með skýr og ákveðin markmið og ég sagði skýrt að við myndum ekki innleiða þetta mál óbreytt. Á síðustu vikum fyrir komu von der Leyen til Íslands fór málið á mikla hreyfingu og við unnum það bæði markvisst og vandað,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is á milli funda á leiðtogafundinum. „Það á enn eftir að hnýta lausa enda og koma með þetta inn í okkar kerfi og pólitík hér, en ég er ánægð með að okkar upplegg er að skila þetta miklum árangri.“ 

Spurð hvað hafi allt í einu breyst sem hafi leitt til þess að sameiginleg niðurstaða náðist segir Þórdís að hún vilji meina að ESB hafi verið búin að taka við upplýsingum frá Íslandi um málavexti og áhrifum af óbreyttu frumvarpi á stöðuna hér.

„Svo er það þannig í samskiptum og pólitík að hlutirnir geta gerst hratt, sérstaklega þegar markmiðið er ljóst og vandað er til verka. Í tilefni af því að von der Leyen var að koma til landsins fór málið á mikinn skrið og við nýttum það tækifæri vel,“ segir hún. 

„Erum að ná þeim markmiðum sem við settum okkur“ 

„Ég hef haldið því mikið á lofti er að það sem við erum að biðja um sé hvorki ómálefnalegt né ósanngjarnt, heldur bent á þau skaðlegu áhrif sem málið hefði haft óbreytt á okkar hagsmuni. Okkur tókst einfaldlega að koma Evrópusambandinu í skilning um það og finna lausn sem þýðir að við erum að ná þeim markmiðum sem við settum okkur og brúa bilið þangað til samkeppnishæfnin er jöfnuð. Þetta er það sem skiptir máli.“ 

Segja má að lausnin fyrir Ísland er að brúa bilið með undanþágu í tvö ár frá fyrirhugðum aðgerðum, þar til annað kerfi tekur við þar sem samkeppnisstaða okkar er jöfnuð. Til­lög­ur um los­un­ar­heim­ild­ir á flug og krafa um vist­vænt eldsneyti á flug­vél­ar eru hluti af mun stærri aðgerðapakka ESB sem lagður var fram í júlí árið 2021 og ber heitið „Fit for 55.“   

Ursula von der Leyen.
Ursula von der Leyen. AFP/John MacDougall

Tillit tekið til samkeppnisstöðu Íslands

Um er að ræða skír­skot­un í mark­mið ESB um að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda um að a.m.k 55% árið 2030. Tveir liðir snúa að flugrekstri. Ann­ars veg­ar að flug­vél­ar taki upp um­hverf­i­s­vænna eldsneyti með íblönd­un­ar­efn­um og hins veg­ar að tekn­ar verði upp los­un­ar­heim­ild­ir eða los­un­ar­skatt­ur þar sem skatt­greiðslur vaxa í sam­ræmi við lengd flug­leggs­ins. Los­un­ar­skatt­ur­inn mun verða sett­ur á í skref­um og kom­in í fulla virkni árið 2027. 

Þórdís Kolbrún segir að með þessari lausn fari undanþágan fyrir Ísland inn í löggjöfina. „Það eru ákveðnar forsendur sem eru skrifaðar inn í löggjöf Evrópusambandsins og við segjum þar skýrt að ef þær forsendur standast að þessum tíma liðnum, þá breytist kerfið og þá hefur okkar samkeppnisstaða verið jöfnuð. Ef þær forsendur standast erum við komin á þann stað og það er skrifað út að ef það gerir það ekki þá er málið tekið upp að nýju á okkar forsendum.“ 

Spurð nánar út í þessar forsendur segir Þórdís Kolbrún að þær snúist um séraðstæður Íslands. „Þar verður tekið tillit til samkeppnisstöðu okkar og landfræðilegrar stöðu,“ segir hún. „Það er hins vegar skrifað inn í löggjöfina að allt flug frá Evrópu verður komið undir eitt kerfi. Það mun jafna samkeppnisstöðuna ef það verður að veruleika – og ef ekki, verður málið tekið upp að nýju,“ segir Þórdís Kolbrún um það hvað verði breytt 2027. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert