Leigjendasamtökin hafa óskað eftir viðræðum við stjórn Heimstaden um kaup á 1.700 íbúðum félagsins svo þau geti áfram verið í útleigu.
Í tilkynningu kemur fram að jafnframt óski Leigjendasamtökin eftir viðræðum við fjármálaráðuneytið, stjórn ÍL-sjóðs og stærri lífeyrissjóði um fjármögnun kaupanna.
„Einnig óska samtökin eftir aðkomu innviðaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um nauðsynlegar lagabreytingar er snúa að stofnun og rekstri samvinnufélags leigjenda,“ segir í tilkynningunni.
„Leigjendasamtökin telja að stjórnvöld geti mætt þessum 1700 fjölskyldum og öðrum leigjendum með því að fjármagna þessi kaup. Skaðinn af því að allar þessar fjölskyldur missi húsnæði sitt yrði hryllilegur. Sala Heimstaden á þessum íbúðum út af leigumarkaði mun einnig valda kreppu á leigumarkaði sem mun skrúfa upp leiguverð og grafa undan lífskjörum þúsunda fjölskyldna. Hér er því yfirvofandi neyðarástand sem bregðast verður við af ábyrgð.“