Sérfræðingar danska uppboðshússins Bruun Rasmussen eru á leið til Íslands í lok mánaðarins og hafa sérstakan augastað á listaverkum eftir gömlu meistarana. Bjóða þeir fólki ókeypis mat á listaverkum og ýmsum munum sem verða svo seldir í Kaupmannahöfn, kjósi fólk svo.
„Einmitt nú er m.a. mikil eftirspurn eftir bæði dönskum og alþjóðlegum hönnunarhúsgögnum, Salto-keramikvörum, eldri PH-lömpum, CoBrA- og samtímalist,“ er haft eftir Peter Beck, yfirmanni matsdeildar, í tilkynningu frá Bruun Rasmussen.
„Verk norrænna listamanna eins og Jóhannesar S. Kjarval, Ásgríms Jónssonar, Jóns Stefánssonar, Kristínar Jónsdóttur, Þorvalds Skúlasonar, Nínu Tryggvadóttur, Guðmundar Guðmundssonar, Gunnlaugs Blöndal og Ólafs Elíassonar eru enn þá mikils metin. Við hlökkum því mikið til að heimsækja Ísland og vonumst til að sjá marga fallega og spennandi gripi,“ segir þar enn fremur.
Uppboðshúsið tekur á móti og metur listmuni, hönnunarmuni, skartgripi, armbandsúr, myntir eða frímerki. Matið fer fram í Norræna húsinu hinn 31. maí á milli klukkan 14-17.