Netárásir Rússa á vefi íslenskra stofnana á meðan á leiðtogafundi Evrópuráðsins stóð, hafði ófyrirséðar afleiðingar fyrir nemendur sem þreyttu sjúkrapróf við Háskóla Ísland í gær.
Þannig lá vefur Alþingis niðri sem um leið sem gerði það að verkum að nemendur við lagadeild höfðu ekki aðgang að lagasafni Alþingis líkt og venja er þegar próf eru tekin.
Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar og dósent við Háskóla Íslands, var með nemendur í stjórnsýslurétti í prófi þegar hiksti kom í Alþingisvefinn.
„Nemendur taka próf á eigin tölvur og við notum kerfi sem lokar á allar vefsíður nema að vissum lénum,“ segir Trausti Fannar en lagasafn Alþingis er eitt þeirra.
Hann segir að um 10 nemendur hafi verið að þreyta próf í gær þegar netárás leiddi til þess að Alþingisvefurinn lá niðri.
„Ég var sjálfur með próf í stjórnsýslurétti og þar voru verkefnin öll raunhæf. Maður býr til tilbúnar aðstæður og það væri best ef þau gætu flett upp lögum og lagaréttum til að leysa rétt úr öllu. En þau höfðu heimildir og gátu gert þetta án þess að vera með lagasafnið auk þess sem það er hægt að fá aðgang að lagasafninu með öðrum hætti," segir Trausti Fannar.
Höfðu vefvandræðin þó þau áhrif að nemendur fengu aukalegan tíma í prófinu en alla jafna fær fólk þrjár klukkustundir til að taka prófið.
„Maður getur sett sig í þau spor að þetta er mjög óþægilegt fyrir nemendur en þau höfðu engu að síður aðgang að töluverðum öðrum heimildum þegar þau tóku prófið.“