Það er frábær niðurstaða að yfirgnæfandi meirihluti ríkja skrifaði undir yfirlýsingu um tjónaskrá Evrópuráðsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Ekki var sjálfgefið að allir myndu skrifa undir hana á leiðtogafundinum í Reykjavík.
Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún var spurð á blaðamannafundi hvaða þýðingu það hefði að ekki hefðu allir skrifað undir yfirlýsinguna, en 46 þjóðir hafa nú þegar undirritað hana.
„Það var viðbúið að einhver ríki myndu ekki skrifa undir,” sagði Katrín og bætti við að einhver þeirra muni fara betur yfir málið í heimalöndum sínum.
Katrín sagði niðurstöðu fundarins vera mjög jákvæða og langt umfram það sem vonast var eftir fyrirfram. Áréttaði hún að Rússar þurfi að svara til saka vegna innrásar þeirra í Úkraínu. Verði þeir ekki látnir sæta ábyrgð geti viðvarandi friður ekki ríkt.
Katrín sagði umrædda tjónaskrá bera hæst að loknum leiðtogafundinum, ásamt skýrri yfirlýsingu um samstöðu með Úkraínu. Einnig hafi skýr skilaboð verið send út um lýðræðislegt fyrirkomulag og í fyrsta sinn rædd tengsl umhverfis og mannréttinda.
Hún sagði þátttöku helstu leiðtoga Evrópu og annarra í leiðtogafundinum vera til marks um mikilvægi hans.
Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, þakkaði Íslendingum fyrir að halda leiðtogafundinn. Hann sagði innrás Rússa ganga þvert gegn okkar gildum og prinsippum, sem séu mikilvægara núna en nokkru sinni fyrr.
Einnig sagði hann þörf á alþjóðlegu réttlæti í garð Rússa og að þeir verði að svara til saka fyrir glæpi sína. Tryggja þurfi að þeir láti af árásum sínum á Úkraínu áður en hægt sé að ræða um frið.
„Aðgerðaáætlunin er ljós og núna er kominn tími til að koma henni í verk,” sagði hann.
Marija Pejčinović Burić, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, sagði leiðtogafundinn hafa verið mjög mikilvægan. Taka þurfi mikilvægar ákvarðanir í framhaldinu í von um að binda enda á stríðið í Úkraínu og einnig þurfi að láta Rússa svara til saka.
Hún sagði gjörðir Rússa í Úkraínu vera árás á lýðræðið og lýsti þeim sem öfgafullu dæmi um bakslag lýðræðis í heiminum.
Jafnframt þakkaði hún leiðtogum Evrópu fyrir að hafa gripið tækifærið og komið til Reykjavíkur.