Skyr á boðstólum fyrir leiðtogana

Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra í Hörpu í dag.
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra í Hörpu í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir skýr skilaboð hafa komið fram á opnunarhátíð leiðtogafundar Evrópuráðsins fyrr í dag. Fólk sé almennt mjög ánægt með skipulag og utanumhald fundarins, sem gekk glimrandi vel að hennar mati.

Þá hafi hringborðsumræðurnar í kjölfar opnunarhátíðarinnar verið óformlegar en hún telur slíkar samræður ná meiri árangri. 

Eftir að formlegri dagskrá fundarins lauk í dag var gestum boðið upp á lamb, bleikju og skyr í kvöldverðinum. Þórdís segir að maturinn hafi fallið gestum vel í geð og að kvöldverðurinn hafi boðið upp á umræðu um íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu.

„Þá var gjarnan spurt „hvers konar landbúnað eruð þið með“, „hvað framleiðið þið“, „hvaðan kemur bleikjan“,“ segir ráðherrann sem kveðst í kjölfarið hafa sagt þeim frá lausagöngu fjár hér á landi og öðru sem það varðar.

„Það var mikill sómi að þessu öllu saman.“

Fundurinn gekk „glimrandi vel“

Spurð út í fundinn segir Þórdís Kolbrún daginn hafa gengið ótrúlega vel heilt yfir. Viðbrögð gestanna við skipulagi fundarins og opnunarathöfninni hafi verið góð og fundurinn sjálfur gengið „glimrandi vel“.

„Opnunarathöfnin var mjög sterk. Það voru skýr skilaboð, nokkrir leiðtogar frá ólíkum svæðum innan Evrópu sem fluttu ræður, með sameiginlega skuldbindingu sem ég tel skipta gríðarlega miklu máli,“ segir hún. 

Hringborðsumræðurnar „mjög óformlegar“

Þórdís segir umræður við hringborðin, sem haldnar voru í kjölfar opnunarathafnarinnar, hafa verið í óformlegri kantinum, jafnvel „mjög óformlegar“. Slíkar samræður finnst henni skila mestum árangri.

Þær hringborðsumræður sem Þórdís tók þátt í fjölluðu um samhengi milli þess að búa í frjálsum samfélögum og hafa burði til að leysa áskoranir og auka lífsgæði fólks og frelsi. Þórdís segir að lönd þar sem almenningur býr við aukið frelsi séu betur í stakk búin til að leysa áskoranir.

Gervigreind var einnig rædd á hennar hringborði auk falsfrétta og frjálsra fjölmiðla. Hún segir að við hennar hringborð hafi setið mjög ólíkir einstaklingar frá mjög ólíkum löndum og sjónarmiðin voru því sömuleiðis mjög ólík.

Bjuggust við netárásum

Greint var frá því fyrr í dag að netþrjótahópurinn NoName057 lýsti yfir ábyrgð á netárásum sem framkvæmdar voru á innviði í aðdraganda fundarins. Þórdís segist hafa búist við árásunum.

„Við vorum búin að búa okkur undir netárásir og að þær yrðu af meiri þunga en alla jafna. Þetta var hluti af því sem við vorum búin að gera fyrir þennan fund,“ segir Þórdís.

„Þeir sem gerðu árásina eru augljóslega að senda frá sér skýr skilaboð,“ segir hún. „Þetta endurspeglar kannski líka að við séum að koma saman og fjalla og taka ákvarðanir um grundvallargildi og þá samfélagsgerð sem við viljum standa vörð um. Það truflar ýmsa.“

Hlakkar til morgundags

Þórdís kveðst vera bjartsýn á að áþreifanleg niðurstaða fáist á fundinum á morgun.

„Hann verður langur og að ákveðnu leyti stærri en í dag,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert