Bjørn Berge, aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópuráðsins, segir í viðtali við Morgunblaðið að nú standi yfir sögulegir tímar í Evrópu, sem geti haft afdrifaríkar afleiðingar. Því hafi þótt nauðsynlegt að efna til leiðtogafundar Evrópuráðsins til þess að meta stöðuna og marka stefnuna.
Þetta er aðeins fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins, hvað er svo brýnt að rétt þyki að kalla saman alla leiðtoga aðildarríkjanna 46?
„Fyrri leiðtogafundir Evrópuráðsins voru nátengdir stórviðburðum, sem kölluðu á viðbrögð. Eftir fall múrsins og lok Kalda stríðsins var t.d. nauðsynlegt að ræða þá nýju stöðu, inntöku hinna nýfrjálsu ríkja í Evrópuráðið, meira en tuttugu ríki, og hvernig mætti lýðræðisvæða þau.
Innrás Rússa í Úkraínu varð þess valdandi að Evrópuráðið stendur aftur á krossgötum. Þess vegna var tímabært að halda fjórða leiðtogafund þess.
Það geisar stríð í miðri Evrópu. Við höfum séð hinn gamla draug þjóðernishyggju ganga aftur. Og við stöndum frammi fyrir bakslagi í lýðræðissegl Evrópu, þar sem grafið er undan lýðræðinu, blaðamenn handteknir, þrengt er að siðuðu samfélagi, dómstólar eru jafnsjálfstæðir og kosningar eru ekki endilega frjálsar, ég gæti haldið áfram.“
En má ekki segja að innrásinm í Úkraínu hafi sameinað ríki Evrópu?
„Jú, í þessu ástandi felast ekki aðeins hættur, heldur einnig tækifæri. Að því leyti er kannski unnt að tala um jákvæð áhrif þessa hryllilega stríðs. Evrópa er sameinuð og við sjáum einnig styrk alþjóðastofnana — Ekki aðeins Evrópuráðsins, heldur líka Evrópusambandsins, Atlantshafsbandalagsins og fleiri.“
Samt voru upphafleg viðbrögð við stríðinu mjög mismunandi…
„Það tók ekki sólarhring frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu þar til það var búið að setja aðild þeirra á bið, öll hin 46 ríki Evrópuráðsins voru samsinna því. Og það tók bara þrjár vikur þar til þeim var sparkað úr því.
Það var sameiginleg og einörð afstaða allra ríkja Evrópu.“
Gott og vel, en það gerðist nú ekki eftir innrásina í Georgíu 2008 eða innlimum Krímskaga 2014…
„Nei, það er satt. Kannski við höfum verið of hrekklaus, kannski við hefðum átt að sjá viðvörunarmerkin fyrr. Og kannski við hefðum átt að bregðast við af meiri hörku.
Hið sama má segja um óheillaþróun innan Rússlands, þar sem blaðamenn voru hnepptir í fangelsi, jafnvel drepnir. Stjórnarandstaðan sett í varðhald, jafnvel drepin. Vandræðalög um erlendan erindrekstur og svo framvegis. Allt vandamál, sem rekja má til þess að grundvallarmannréttindi voru ekki virt.
Við hefðum sennilega átt að bregðast fyrr við.“
Evrópuráðið hefur frá upphafi látið sig frelsi og mannréttindi, lýðræði og réttarríkið mestu varða, en á þessum leiðtogafundi virðist fókusinn vera á ytra byrðinu, á Úkraínu fyrst og síðast. Eru það nýjar áherslur ráðsins?
„Nei, ekki endilega. Við höfum lagt mikla rækt við innra byrðið í Úkraínu á meðan öllu þessu hefur staðið, höfum raunar verið mjög iðnir við kolann þar í mörg ár. Stærsta svæðisskrifstofa okkar hefur um langa hríð verið í Úkraínu, nærri 60 manna skrifstofa. Við höfum staðið fyrir ótal verkefnum í Úkraínu, einmitt á þessum sviðum sem þú nefndir, mannréttindum, lýðræði og réttarríki. Það er og hefur verið grunnurinn í öllu okkar starfi og það hefur ekki breyst.
Úkraína á í stríði fyrir frelsi sínu og það er þröng staða. Hvernig er hægt að tryggja að dómstólarnir virki á stríðstímum? Þar erum við til aðstoðar. Við höfum líka verið Úkraínu innan handar um hvernig stríðsglæpir eru rannsakaðir og unnið náið með ríkissaksóknara í Úkraínu.“
Hvernig standa Úkraínumenn sig í því?
„Mér finnst þeir standa sig vel miðað við kringumstæður. Landið á í stríði, en samt sem áður þá virkar ríkisvaldið eins og skyldi. Úkraínumenn eru að standa sig og Evrópuráðið hefur lagt sinn skerf til þess með stuðningi við stofnanir, ráðgjöf og aðbúnaði viðkvæmra hópa.“
Nú er stundum sagt að á fundum sem þessum gerist allt hið mikilvæga fyrir fundinn og eftir fundinn. En til hvers þá að halda þá?
„Það er alveg rétt að í Strassborg [höfuðstöðvum Evrópuráðsins] höfum við átt í löngum og ströngum viðræðum, samningaviðræðum jafnvel, um það helsta sem hér hefur verið til umfjöllunar.
En við sjáum að mætingin hér í Reykjavík var frábær, sem er bæði til votts um áhugann á fundarefninu og hvað okkar íslensku gestgjafar voru duglegir við að laða til sín kollega í æðstu stöðum frá nær öllum aðildarríkjum Evrópuráðsins.
Það er einnig mikilvægt fyrir leiðtoga ríkjanna að hittast, eiga í milliðalausum samskiptum og blanda geði.“
Mætingin er góð, en samt er einn sem ekki kom. Sakna menn þess að Volodymír Selenskí hafi ekki komist?
„Það hefði auðvitað verið gaman ef hann hefði komið, en það er enginn skaði skeður. Boðskapur hans er jafnsterkur, þó hann sé fluttur á skjánum úr fjarska.“