Tjónaskráin ánægjuleg niðurstaða

Mark Rutte forsætisráðherra Hollands, Denys Sh­myhal for­sæt­is­ráðherra Úkraínu, og Katrín …
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands, Denys Sh­myhal for­sæt­is­ráðherra Úkraínu, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands glöð í bragði við undirritun stofnskjala tjónaskrárinnar. Morgunblaðið/AM

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er afar ánægð með lyktir mála vegna tjónaskrár Evrópuráðsins af völdum innrásar Rússa í Úkraínu og þykir það góður árangur leiðtogafundar Evrópuráðsins.

„Niðurstaðan er sú að yfirgnævandi meirihluti ríkja Evrópuráðsins og raunar fleiri til eru að undirrita stofnskjöl tjónaskrár Evrópuráðsins, stór og mikilvæg ríki sem miklu skiptir að séu með. Við erum mjög ánægð með þann mikla stuðning,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

En það eru ekki allir með? Tyrkir og Ungverjar, Serbar og Kosvo, Armenía og Azerbajdshan hafa öll skorist úr leik.

„Nei, nokkur ríki hafa kosið að undirrita ekki og þau koma svo sem ekki á óvart, engin óvænt ríki í þeim hópi. En mér finnst þessi mikli meirihlutastuðningur við verkefnið einkar ánægjulegur.“

Er það árangur þessa Reykjavíkurfundar?

„Við höfum verið að undirbúa þetta í marga mánuði, svona lagað gerist ekki bara hér á þessum fundi, og það hefur borið þennan ríka og góða árangur.“

Gangverk sem er forsenda skaðabóta

En hvað gerist svo?

„Með þessu föllumst við á að búið sé til gangverk um það hvernig við skráum þann skaða, sem orðið hefur í Úkraínu af völdum Rússa. Þar verður þá kominn grundvöllur til greiðslu einhverskonar skaðabóta. Ýmislegt hefur verið rætt í þeim efnum, kyrrsettar eignir Rússa o.s.frv., en sú útfærsla þarf að vera mótuð nú í framhaldinu.“

Til uppbyggingar eftir að stríðinu lýkur?

„Auðvitað nýtast þeir fjármunir til uppbyggingar, það er hugsunin, að tjónið sé bætt. Mannfallið verður aldrei bætt, en þarna ræðir líka um byggingar, innviði, mannvirki og umhverfistjón, sem verður mjög flókið að bæta.“

Hvaða hlutverki mun Ísland gegna í því?

„Við höfum haldið þessum kyndli á lofti sem formennskuríki í Evrópuráðinu undanfarið hálft ár, en nú munum við afhenda formennskuna til Lettlands í dag, Þórdís mun gera það. Við munum áfram beita okkur fyrir þessu verkefni, en það er komið að Lettum að taka við kyndlinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert