Tölvuþrjótar gerðu atlögu að Landspítalanum

Mikill viðbúnaður hefur verið á Landspítalanum á seinustu vikum vegna …
Mikill viðbúnaður hefur verið á Landspítalanum á seinustu vikum vegna leiðtogafundarins. mbl.is/Jón Pétur

Landspítalinn er í hópi þeirra stofnana sem varð fyrir netárásum á meðan leiðtogafundi Evrópuráðsins stóð. Netárásirnar ollu sem betur fer engum alvarlegum truflunum. Þetta segir Már Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu.

„Það voru gerðar árásir á okkur mjög reglubundið, strax í gærmorgun og fram eftir degi,“ segir Már í samtali við mbl.is. „Ég geri ráð fyrir því að það hafi haldið áfram en er ekki kunnugt um að það hafi orðið alvarlegar rekstrartruflanir á tölvukerfinu hjá okkur.“

Fjöldi stofnana varð fyrir barðinu á netþrjótum í dag og í gær. Þar á meðal Alþingi, Isavia og ÁTVR.

Már Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu á Landspítalanum.
Már Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu á Landspítalanum. mbl.is/Ásdís

Engar alvarlegar truflanir

Már segir að um sé að ræða svokallaðar álagsárásir. Í slíkum árásum er mikilli netumferð beint á vefsíður.

Greint hefur verið frá því að netárásir voru gerðar á ís­lensk­ar vefsíður í gærmorg­un en hópur­ rússneskra netþrjóta sem kallar sig NoName057 hef­ur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Fyrst heyrðist af aðgerðum hóps­ins í mars á síðasta ári.

Már segir leiðbein­ing­ar hafa verið send­ar á alla starfs­menn um rétt viðbrögð þegar kemur að því að tryggja upp­lýs­inga­ör­yggi spít­al­ans. Mikill viðbúnaður hafi einnig verið hjá tölvudeild spítalans. Hann segir allt hafa gengið mjög vel og að starfsfólk hafi fylgt öllum fyrirmælum um aðgát.

Ekkert alvarlegt atvik á spítalanum

Mikill viðbúnaður hefur verið á Landspítalanum á seinustu vikum. Starfsfólk bráðamóttöku hefur búið sig undir sprengingar, stórar skotárásir og eiturefnaárásir í aðdraganda leiðtogafundarins.

Már segir allan undirbúning hafa gengið með sóma.

„Eftir því sem ég best veit hefur gengið afar vel. Starfsfólk hefur brugðist við af mikilli fagmennsku á spítalanum og allir eru undirbúnir fyrir óvænta atburði en hingað til hefur ekki orðið neitt atvik eða þurft að koma til nokkurra kasta.“

Hann segist heilt yfir vera sáttur með hvernig allt hefur gengið á meðan á fundinum stóð og hrósar starfsfólki fyrir góð störf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert