Umfangsmikil amfetamínframleiðsla í sendiferðabíl

Ákærur á hendur mönnunum verða þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Ákærur á hendur mönnunum verða þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. mbl.is/Þór

Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir umfangsmikla amfetamínframleiðslu í sendiferðabíl. Rúv greinir frá en í fréttinni kemur fram að bílnum hafi verið lagt á bílastæði í Kópavogi.

Í umfjöllun Rúv segir að mennirnir séu ákærðir fyrir framleiðslu á rúmum fjórum kílóum af amfetamíni. Annar þeirra verður þrítugur á þessu ári og hinn 35 ára.

Yngri maðurinn er einnig ákærður ásamt tveimur öðrum fyrir að hafa verið með mikið magn kannabisefna sem þeir eru sagðir hafa ræktað í iðnaðarbili í Hafnarfirði.

Þá er yngri maðurinn einnig ákærður vegna innbrots í félagi við fimmta manninn en þeir eru sagðir hafa stolið dýrum merkjavörum sem fundust við húsleit á heimili fimmta mannsins.

Fimmti maðurinn er einnig ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en lögregla fann rúmlega 2,7 kíló af amfetamíni og talsvert magn vefaukandi steralyfja við húsleitina.

Ákærur á hendur mönnunum verða þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert