Vefur Isavia lá niðri eftir árás

Netárás var gerð í morgun á vefsíðu Isavia, sem birtir flugupplýsingar fyrir alla íslenska áætlunarflugvelli. Síðan lá niðri í um það bil tvær klukkustundir. Um var að ræða svokallaða DDoS árás.

„Þá er framkölluð umferð á vefsíðuna með þúsundum sýndarnotenda til að gera hana óvirka. Tæknimönnum tókst að verjast árásinni og koma síðunni aftur upp. Þó getur það tekið lengri tíma fyrir einhverja notendur að komast inn á vefinn,“ að því er Isavia greinir frá í tilkynningu. 

Þá segir, að um leið og netárásin hafi verið gerð hafi varasíða með aðgengi að flugupplýsingum um Keflavíkurflugvöll verið opnuð og vísað á hana á samfélagsmiðlum félagsins. Þá var hægt að nálgast upplýsingar um innanlandsflug á vef Textavarpsins og flugfélaganna og var einnig vísað þangað á samfélagsmiðlum innanlandsflugvalla. 

„Við biðjumst velvirðingar á vandamálum sem þetta kann að hafa valdið farþegum og viðskiptavinum okkar,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert