Verða að vona að lenda ekki í því sama og Úkraína

Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra í Hörpunni.
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra í Hörpunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir gríðarlega jákvæðar fréttir hversu mörg ríki hafi skuldbundið sig til að vera með í tjóna­skrá Evr­ópuráðsins af völd­um inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Segir hún að önnur ríki hafi sagt að vinna við að koma slíku verkefni í gang gæti tekið ár eða jafnvel nokkur ár, en að tekist hafi að ná breiðum stuðningi á aðeins sex mánuðum.

„Þetta er langt um betra en ég þorði að vona, en sýnir mikla pólitíska skuldbindingu,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is á leiðtogafundinum. „Ég er mjög þakklát og sátt með þessa miklu þátttöku,“ segir hún og bætir við að auk fjölda Evrópuríkja hafi öll G7-ríkin ákveðið að vera með.

„Verkefnið núna snýst um að útbúa þessa tjónaskrá, næsta skref er svo að finna leiðina að því að þessar bætur verði greiddar. Það kallar á frekari skoðun og vinnu. Það liggur ekki fyrir hvaða leið verður farin og því hvaða kostnaður verður til,“ segir Þórdís.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að sex ríki hefðu ákveðið að skrifa ekki undir yfirlýsinguna um tjónaskrá. Eru það Armen­ía, Aser­baíd­sj­an, Bosn­ía, Serbía, Tyrk­land og Ung­verja­land. Spurð út í ákvörðun þessara ríkja og þá sérstaklega hvort það séu vonbrigði að Ungverjaland hafi verið þar á meðal segir Þórdís að það sé þessara ríkja að svara fyrir af hverju þau eru ekki þátttakendur.

„Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég gerði frekar ráð fyrir því en ekki að ákveðin ríki myndu ekki vera með, þannig að þau lönd koma ekkert sérstaklega á óvart.“ Hún tekur fram að ekki sé útilokað að einhver lönd eigi eftir að bætast við, en að hún leggi áherslu á stuðning þeirra sem hafi þegar skrifað undir. „Þetta er mikill árangur, stórar fréttir og góð byrjun að hrinda þessu í framkvæmd hratt og örugglega.“

„Þetta er allt spurning um að standa vörð um þau gildi sem við erum að varðveita og þarna á að bæta fyrir það tjón sem hefur orðið,“ segir Þórdís um ástæðu þess að koma tjónaskrá sem þessari á koppinn. „Eitthvað ríki sem ákveður að taka ekki þátt í því hlýtur þá að vona að það lendi ekki í því sem úkraínska þjóðin hefur lent í. En það verður hver og einn að eiga við sig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert