Gaman að „hata Dani smá“

Stefan Sand Groves stýrir Vox feminae, vöskum hópi tónelskra valkyrja …
Stefan Sand Groves stýrir Vox feminae, vöskum hópi tónelskra valkyrja sem glittir í að baki honum á þessari æfingu í Seltjarnarneskirkju á sunnudaginn. Kórinn heldur vortónleika sína í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Já, ekki alveg en smá,“ svarar Stefan Sand Groves, dansk-breskur nýbakaður meistari í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands, tónlistarkennari og kórstjóri kvennakórsins Vox feminae, inntur eftir því hvort hann tali ekki bara fína íslensku.

Alltént hófst þetta viðtal á ástkæra ylhýra og gekk nokkuð lengi áður en tekinn var kafli á ensku og jafnvel innslög á dönsku úr annarri áttinni og norsku úr hinni. En það er nú útúrdúr.

Kórstjórinn bættist formlega í hóp svokallaðra Íslandsvina þegar hann kom sem skiptinemi til landsins árið 2019, þá nemandi við hinn fornfræga tónlistarháskóla Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í kóngsins Kaupmannahöfn hvar hann hafði numið píanóleik til bakkalárgráðu og kennslufræði sama hljóðfæris til meistara.

Kynntist kærustunni í kórnum

„Ég kom sem skiptinemi frá skólanum í Kaupmannahöfn og í Listaháskólann hér og ætlaði mér bara að vera hérna í hálft ár en er hér enn,“ segir Stefan frá. Samhliða tónsmíðanámi sínu við Listaháskólann lærði hann kórstjórn og hljómsveitarstjórn og hóf þar með kórstjórnarferil sinn á Íslandi, við stjórn Háskólakórsins þar sem hann kynntist kærustu sinni og núna eftir nokkra mánuði barnsmóður, Maríu Björk Gunnarsdóttur, þá sálfræðinema en nú barnasálfræðingi hjá Geðheilsumiðstöð barna.

Sálarfræðin og tónlistin sameinast í Maríu og Stefan sem kynntust …
Sálarfræðin og tónlistin sameinast í Maríu og Stefan sem kynntust þegar hann stjórnaði Háskólakórnum og hún nam fræði sín við stofnunina. Ljósmynd/Nino Felbab

„Gunnsteinn Ólafsson kenndi mér kórstjórn í Listaháskólanum,“ segir Stefan frá og var Háskólakórinn þá hafður sem kennslugagn ef svo mætti segja. Er fram liðu stundir sá hann svo auglýsingu frá Vox feminae, kvennakórnum annálaða sem í dag heldur einmitt vortónleika sína í Seltjarnarneskirkju, og sótti um upp á von og óvon.

„Þarna var ég farinn að læra hjá Magnúsi Ragnarssyni, sem stjórnar meðal annars Kór Langholtskirkju, ég sótti um og var boðaður í viðtal sem gekk bara vel, ég var heppinn, var þarna á réttum tíma,“ segir Stefan sem lauk meistaranámi sínu í vor og hélt lokatónleika sína í Hörpu í síðustu viku, stjórnaði þar hljómsveitinni Caput, eða Caput-hópnum, í salnum Kaldalóni en sveitin flutti frumsamið tónverk Stefans.

Dýrt að læra á Íslandi

„Það var mjög gaman að fá að stjórna flutningi á eigin verki,“ játar tónskáldið sem aðeins nokkrum dögum eftir útskriftartónleikana var tekinn til við stjórn stórvirkisins Töfraflautunnar eftir Mozart í útsetningu söngdeildar Listaháskólans. „Ég er stundum að gera of mikið og oft segi ég já við öllu,“ segir Stefan og hlær en hann er enn fremur að hefja störf sem píanókennari við Tónlistarskóla Kópavogs og er sjálfstætt starfandi tónskáld – að ógleymdri kórstjórninni.

Útskriftarverkefnið í Kaldalóni þar sem Stefan stjórnaði Caput-hópnum og flutningi …
Útskriftarverkefnið í Kaldalóni þar sem Stefan stjórnaði Caput-hópnum og flutningi hans á frumsömdu verki stjórnandans. Hér syngur Ólafur Freyr Birkisson einsöng. Að stjórna flutningi eigin verks var mikil upplifun segir Stefan. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Áður kenndi hann í þrjú ár við Tónlistarskóla Árbæjar og hefur því sinnt kennslu samhliða öllu sínu námi á Íslandi. Listnám er nefnilega langt í frá ókeypis. „Það er mjög dýrt að læra á Íslandi og kostar mikinn pening að vera í Listaháskólanum, ég varð að hafa laun einhvers staðar,“ útskýrir Stefan sem lagði mikið á sig til að komast í vinnu á Íslandi.

„Ég sendi öllum tónlistarskólunum tölvupóst og fékk svo svar frá Stefáni Stefánssyni í Árbæ og þar byrjaði ég. Það var mjög mikilvægt fyrir mig að fá starf, ég vildi koma mér inn í íslenskt samfélag og ég er mjög þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri,“ segir Stefan sem er enginn nýgræðingur í kennslumálum, hann hefur kennt píanóleik frá 19 ára aldri.

Hvað með tungumálið – hvernig gekk að hefja kennsluna á Íslandi sem nýgræðingur í málinu?

„Ég kenndi á ensku fyrst en fór þá að fá kvartanir frá foreldrum barnanna svo ég hugsaði ég verð að tala íslensku við þessa nemendur og það kom bara fljótlega, ég er svona „hálft-hálft“ núna,“ segir Stefan og á við að hann telji sig hálfnaðan í glímunni við nýtt tungumál sem býður notendum sínum töluvert skelfilegri málfræði en danskan.

Orð sem breytast þúsund sinnum

„Hún er ótrúlega erfið,“ svarar kórstjórinn hispurslaust þegar blaðamaður spyr hann út í íslenskuna, „sum orðin eru kannski svipuð og í dönsku en svo breytast þau þúsund sinnum,“ segir hann og kveður mikið liggja við að temja sér íslenskuna enn betur yfir sumarið. „Ég er að fara að eignast barn í september og við erum búin að ákveða að það verður engin enska töluð við barnið, bara danska og íslenska,“ segir Stefan ákveðinn.

„Ég er í góðu starfi og hef eignast góða vini …
„Ég er í góðu starfi og hef eignast góða vini og svo er bara miklu meiri ró hér en í Kaupmannahöfn, ég kann mjög vel við mig á Íslandi,“ segir Stefan. Hér á tónleikum í Langholtskirkju með Háskólakórnum og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í nóvember í fyrra. Messa Beethovens í C-dúr. Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Þegar örlögin hafa gripið svo kirfilega í taumana að íslenskur maki er kominn til skjalanna og barn á leiðinni er skiljanlegt að Ísland sé farið að hafa aðdráttarafl þegar litið er til framtíðarbúsetu – en ástæðurnar eru fleiri.

„Ég er í góðu starfi og hef eignast góða vini og svo er bara miklu meiri ró hér en í Kaupmannahöfn, ég kann mjög vel við mig á Íslandi,“ segir Stefan sem er töluvert meiri Dani en Breti sé litið til annarra þátta en bara erfðafræðinnar. „Ég bjó alltaf í Kaupmannahöfn þótt pabbi sé Breti, hann flutti til Danmerkur,“ útskýrir hann.

„Aginn er dálítið minni á Íslandi og fólk síður skipulagt en Danir. Hér er andrúmsloftið afslappaðra, til dæmis þetta klassíska „þetta reddast“,“ segir Stefan og verður með því annar erlendi viðmælandi blaðamanns sem hefur sérstaklega orð á hinni lífseigu þetta reddast-heimspeki Íslendinga.

Danir mikið eftir bókstafnum

„Fólk bíður kannski fram á síðustu stundu með hlutina og segir bara að þeir reddist. Þetta er mjög stressandi fyrir mig sem Dana, ég vil skipuleggja allt frá grunni,“ segir Stefan. Nú nú, hvað varð um hinn fræga „ligeglad“ Dana sem er síþambandi bjór og tekur lífinu hæfilega alvarlega? Forn íslensk þjóðfélagsmynd, alla vega sumra, af Danaveldi, að minnsta kosti á unglingsárum þess sem hér skrifar.

Stefan segir smæð íslensks samfélags tvíeggjað sverð.
Stefan segir smæð íslensks samfélags tvíeggjað sverð. Ljósmynd/Nino Felbab

Stefan slær þessa gömlu Danaímynd kalda. „Ég hef nú bara aldrei tekið eftir þessu eða séð þessa hlið á Dönum. Það kemur mér á óvart að Íslendingar hafi séð Dani í þessu ljósi,“ segir hann og skellihlær. Þar fór það.

„Danir eru rosalega mikið eftir bókstafnum. Svo er Ísland svo lítið og hér þekkjast allir. Þess vegna er auðveldara hérna að fá svör við ýmsu en þarna er líka tvíeggjað sverð. Fólk hefur góð sambönd og á því er hægt að græða en hér er líka lítil samkeppni vegna fámennisins sem stundum getur orðið til þess að það er ekki endilega sá hæfasti sem fær starfið,“ segir Stefan og bendir einnig á áhrif lítils samfélags í tónlistinni:

„Ísland er lítið land þar sem allir þekkjast í tónlistarheiminum. Þar er fátt mikilvægara en hógværðin og maður forðast ósjálfrátt að troða einhverjum um tær vegna þess að maður veit aldrei hvaða möguleika maður er þá að eyðileggja fyrir sér,“ segir kórstjórinn og skil verða á umræðuefnum. Hann kveðst einnig mjög ánægður með náttúru landsins og veðurfar.

„Ég kann mjög vel við kuldann og ég er ekkert fyrir sól, ég brenn mjög auðveldlega og ég þoli ekki pöddur. Hér er fátt um skordýr svo ég er mjög hamingjusamur.“

Stefan sótti um upp á von og óvon þegar staða …
Stefan sótti um upp á von og óvon þegar staða kórstjóra Vox feminae var auglýst og nú stjórnar hann kórnum sem hann kveður töluvert ólíkt því að fara með stjórn Háskólakórsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

For helvede!

Aðspurður segir Stefan að Íslendingar skynji hann strax sem Dana, aldrei Breta. „Fólk heyrir hreiminn minn og þá fara allir að segja „for helvede!“ og svona. Íslendingum finnst gaman að hata Dani smá, það er samt svona hálfgerður brandari í því auðvitað, fólk fer að tala um að Íslendingar hafi í upphafi stjórnað sínu landi sjálfir,“ segir hann og vísar til síðari tíma danskra yfirráða á landinu fram til 1944.

Hafa Íslendingar þá mikið verið að spreyta sig á dönsku við Stefan, kennslugrein sem nánast frá upphafi hefur verið allumdeild meðal íslenskra grunn- og framhaldsskólanemenda?

„Nei, það gerist nánast aldrei, ekki hérna, en ef Íslendingar flytja til Danmerkur þá ná þeir dönskunni eins og skot og það er einmitt vegna þess að þeir hafa þennan grunn í henni úr skólanum. Dönskukennsla þykir hins vegar ekki spennandi hérna, og ég hef heyrt það oft, íslenskum nemendum þykir danska ekki spennandi sem námsgrein,“ segir Daninn.

Kórstjórinn langt undir meðalaldri

Talið berst að kórstjórninni og í hverju munurinn felist helst á að stjórna Háskólakórnum til móts við Vox feminae.

„Þar er náttúrulega töluverður aldursmunur á milli en Vox feminae er þar að auki kvennakór, Háskólakórinn blandaður. Þar sem í Vox feminae er fullorðið fólk er ég mun minna í því að kenna þeim. Ég er meira að hvetja þær, veita þeim innblástur og sannfæra þær um að þær hljómi frábærlega – sem þær gera. Þetta snýst um að njóta tónlistarinnar og þetta snýst um að njóta félagslífsins,“ útskýrir kórstjórinn.

„...en þetta er líka ákveðið skref fyrir þær að fá …
„...en þetta er líka ákveðið skref fyrir þær að fá mig sem kórstjóra, ég er ungur maður.“ Ljósmynd/Guðmundur Alfreðsson

Verkefni kórsins um þessar mundir eru að sögn Stefans krefjandi en hann segir söngvarana standa sig með mikilli prýði. „Þetta er líka mjög þægilegt umhverfi, ég upplifi mig velkominn og ég skemmti mér mjög vel. Við eigum samt mjög auðvelt með að taka á okkur alvarlegan blæ og virkilega sinna því sem við erum að gera en þetta er líka ákveðið skref fyrir þær að fá mig sem kórstjóra, ég er ungur maður,“ segir Stefan, fæddur árið 1995 og því töluvert undir meðalaldri kórs síns sem telur á fjórða tug liðskvenna.

Tónlist fyrir heyrnarlausa

„Þær styðja mig líka vel í íslenskunáminu, ég skipti bara yfir í ensku í smástund ef mig vantar réttu orðin, það er ekkert sem hægir á okkur í starfinu,“ segir Stefan og greinir undir lokin frá áhugaverðu tónlistarverkefni sem fram undan er hjá honum.

„Eftir sumarið í sumar er ég að fara með hóp í ferðalag um Norðurlöndin þar sem við munum leiða heyrnarlaust fólk og heyrandi saman og skapa tónlist sem báðir hóparnir geta notið. Við munum halda vinnustofur og tónleika í Færeyjum, Danmörku og Noregi með heyrnarlausu fólki í þessum löndum og að lokum verðum við með ferna tónleika í Tjarnarbíói í október með búningum, sviðsmyndum og öllu saman. Við höfum náð að fjármagna þetta þannig að það verði stórverkefni,“ segir Stefan og ljóstrar því upp í framhaldinu að þarna verði um eina af örfáum tilraunum að ræða sem gerðar hafi verið í heiminum með tónlist fyrir heyrandi fólk og heyrnarlaust.

„Þetta er eitt dæmi um það sem ég kem til með að fást við í framtíðinni en ég mun líka alltaf vera að kenna, ég elska að kenna og get ekki án þess verið, enda er mjög erfitt að lifa af því einu saman að vera tónskáld,“ segir Stefan Sand Groves að lokum, tónskáld, píanókennari og kórstjóri sem í dag stjórnar kvennakór sínum, Vox feminae, á vortónleikum kórsins. Og þar þýðir sko ekkert að vera „fløjtende ligeglad“.

„...ég mun líka alltaf vera að kenna, ég elska að …
„...ég mun líka alltaf vera að kenna, ég elska að kenna og get ekki án þess verið, enda er mjög erfitt að lifa af því einu saman að vera tónskáld.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert