Héraðsdómur Reykjaness hefur fellt þann dóm að maður nokkur skuli sæta fimm mánaða fangelsi, skilorðsbundnu til tveggja ára, fyrir þjófnað og fjársvik með því að hafa árið 2021 tekið 100.000 krónur út í hraðbanka af greiðslukorti föður síns sem látist hafði sama dag. Er þar þjófnaðarliður ákærunnar.
Fjársvik ákærða fólust hins vegar í því að hafa, um svipað leyti, án heimildar og í blekkingarskyni, hringt í Íslandsbanka og kynnt sig fyrir starfsmanni bankans sem föður sinn, gefið upp leyninúmer á bankareikningi hans og fengið starfsmann bankans til að millifæra ellefu milljónir króna inn á bankareikning ákærða.
Krafðist saksóknari refsingar og eins þess að ákærði yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Í málinu gerði lögmaður dánarbús föðurins enn fremur þá kröfu fyrir hönd dánarbúsins að ákærða yrði gert að greiða búinu 8.518.067 krónur auk vaxta.
Játaði ákærði sök samkvæmt ákæru, samþykkti bótaskyldu sína en taldi fram komna bótakröfu of háa. Leit dómari til þess við ákvörðun refsingar að ákærða hefði ekki verið gerð refsing áður. Segir svo í forsendum dómsins:
„Hann játar sök að fullu og fyrir dómi og áður við rannsókn málsins. Af hans hálfu var lýst að honum hefði brugðið mjög við andlát föður síns en þeir hefðu lengi haldið heimili saman og verið nánir. Eftir því sem fram hefur komið í málinu eru ákærði og [...] hans einu erfingjar föður þeirra og verður að ætla að hlutur ákærða við búskipti hefði orðið í samræmi við það eftir atvikum. Á hinn bóginn beinist brotið að dánarbúi föður hans, þannig að ætla verður að brotið komi í reynd sérstaklega niður á meðerfingja ákærða, [...] hans. Þegar á allt er horft ákveðst refsing ákærða fangelsi í fimm mánuði en fullnustu hennar frestað og niður falli hún að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.“
Þá taldi dómari ákærða bótaskyldan gagnvart brotaþola, hinum erfingjanum, og fengi bótakrafa lögmanns dánarbúsins stoð í gögnum málsins. Hefði ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að ákveða bætur lægri en farið væri fram á.