Breytingar sem fela í sér rýmkun á aðgengi að áfengi ber að skoða gaumgæfilega með tilliti til lýðheilsu og hugsanlegra afleiðinga. Þetta segir í umsögn Áfengis- og tókbaksverslunar ríkisins um frumvarp til breytinga á áfengislögum, sem Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir hefur lagt fram á Alþingi. Meðflutningsmenn hennar eru fjórir aðrir þingmenn Framsóknarflokks.
Í frumvarpinu er lagt til að ein af 12. greinum áfengislaga falli brott, en skv. henni eiga Vínbúðirnar, sem margir kalla Ríkið, að vera lokaðar á helgidögum þjóðkirkjunnar, svo og á sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og frídag verslunarmanna. Af ákvæðinu leiðir einnig að lokað er á sunnudögum. Slíkt segja flutningsmenn frumvarpsins að samræmist ekki tíðaranda.
Með tilkomu nýrra áfengisverslana, svo sem netverslana, þurfti ÁTVR rýmri heimildir til viðbragða, enda miði frumvarpið að slíku. Eðlilegt sé að stjórnendur ríkisfyrirtæksins hafi sjálfir rétt til að ákveða afgreiðslutíma.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.