Baðherbergiskóngurinn úr Garðabæ

Ágúst Ágústsson hóf ferilinn í Noregi sem verkamaður á Sola-flugvelli, …
Ágúst Ágústsson hóf ferilinn í Noregi sem verkamaður á Sola-flugvelli, fór svo gegnum olíuverðhrunið fræga en selur nú tilbúnar baðherbergiseiningar gegnum fyrirtæki sitt IceNor Trading AS. Ljósmynd/Aðsend

„Ég flutti út haustið 2010 í þessari blessuðu krísu og fyrsta vinnan sem ég fæ er bara ofan í skurði á Sola-flugvelli,“ segir Ágúst Ágústsson frá, Garðbæingur sem á þessu ári nær þrettán ára búsetu í Noregi og telst nú nánast til þess hóps er kalla má athafnamenn, svo vel hefur fyrirtæki hans, IceNor Trading AS, dafnað á þeim tíma sem nú er liðinn síðan Ágúst mátti vart mæla á norska tungu og vann í skurði á Sola-flugvellinum.

„Ég flutti mig svo yfir í steypusögun og var í henni í einhverja átta mánuði og var vægast sagt puð en þarna er ég kominn með einhver tök á málinu,“ rifjar Ágúst upp, þá búsettur í Rogaland-fylkinu á vesturströndinni þar sem finna má bæjarfélög á borð við Stavanger og Haugesund.

Eldfimt andrúmsloft í olíunni

Þótti Íslendingnum nú tímabært að mennta sig í einhverju er reynst gæti honum lyftistöng. „Ég fór þá í tækninám og fékk þá vinnu í Stavanger, hjá fyrirtæki sem heitir Bartec Technor og sérhæfir sig í rafmagnstöflum og tengibúnaði fyrir olíuborpallana, búnaði sem verður að vera algjörlega neistafrír,“ segir Ágúst frá enda getur andrúmsloftið auðveldlega orðið eldfimt, í orðsins fyllstu merkingu, á bor- og vinnslupöllum Norðursjávarins.

Dæturnar Elfa Sól og Gabríela Rós Ágústsdætur una hag sínum …
Dæturnar Elfa Sól og Gabríela Rós Ágústsdætur una hag sínum vel í Noregi, önnur í framhaldsskóla hin í 9. bekk. Ljósmynd/Aðsend

Ágúst lýkur svo námi sínu samhliða starfinu hjá Bartec en þá dregur til tíðinda. „Þá fæ ég atvinnutilboð frá Kristiansand, frá National Oilwell Varco, og í framhaldinu flytjum við til Suður-Noregs og byrjuðum í Søgne,“ rifjar ágúst upp, þá með íslenska konu og tvær dætur.

Ekki kunni sú búseta þó góðri lukku að stýra, mikill og tímafrekur akstur í norsku vegakerfi sem er ágætt fyrir vegfarendur sem hafa nógan tíma – síðra fyrir aðra. Fóru leikar því svo að Ágúst og fjölskylda fluttu til Lillesand sem liggur öllu betur við vinnustaðnum þáverandi. Upp úr því skilur leiðir þeirra eiginkonunnar og barnsmóðurinnar og Ágúst flytur enn, í þetta skiptið til Grimstad.

Þegar einar dyr lokast...

En blikur voru á lofti. Fáum starfsmönnum olíuframleiðenda Noregs – og heimsins – líður úr minni olíuverðhrunið sem hófst árið 2014 og sendi 115 dala olíutunnu niður í tæplega 30 dali er verðið var hve lægst í ársbyrjun 2016.

„Þarna misstu yfir 20.000 verkfræðingar vinnuna í Noregi. Þá missti ég vinnuna og opnaði þá teiknistofu í Grimstad,“ segir Ágúst frá og sannast þar hið fornkveðna að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott því um þetta leyti lá leið Garðbæingsins inn í heim tilbúinna baðherbergiseininga sem hægt og bítandi urðu hans ær og kýr.

Ágúst ásamt Jon Henning Johnsen, samstarfsmanni sínum og meðeiganda í …
Ágúst ásamt Jon Henning Johnsen, samstarfsmanni sínum og meðeiganda í fyrirtækinu. Ljósmynd/Aðsend

„Ég sé að það er verið að auglýsa stöðu hjá fyrirtæki í Grimstad sem er að útbúa baðherbergiseiningar og annað,“ segir Ágúst frá, „og ég hafði svolítinn áhuga á að færa mig úr vélateikningunum yfir í byggingateikningarnar þannig að ég sæki um vinnu þar og er þar í tæp þrjú ár, þangað til ég segi upp og fer sjálfur af stað með fyrirtæki, ásamt fyrrverandi sölustjóranum á gamla vinnustaðnum,“ heldur hann áfram.

Tími til að tengja

Þar með voru hjólin farin að snúast og þeir félagar orðnir sjálfstæðir atvinnurekendur í baðbransanum. „Ég byggði þarna upp markaðinn á Íslandi, þetta eru í raun bara „plug and play“-baðherbergi sem eru hífð inn í fjölbýlishús með krana og pípararnir þurfa ekkert að gera nema tengja lagnirnar og þá er þetta bara tilbúið,“ útskýrir Ágúst af baðherbergjum sínum sem hann flytur nú í gríð og erg á íslenskan markað, frá Noregi.

Baðherbergiseiningarnar eru hífðar fullbúnar á sinn stað og þá er …
Baðherbergiseiningarnar eru hífðar fullbúnar á sinn stað og þá er ekki annað eftir en að tengja lagnir. Ljósmynd/Aðsend

Fljótlega var eftirspurnin komin á það stig að þeir félagar fengu ekki rönd við reist hvað eigin framleiðslu snerti og sáu sig því knúna til að úthýsa henni. „Við gerðum þá samninga við verksmiðjur í Eistlandi og Finnlandi og núna nýlega á Ítalíu og erum núna komnir með umboðssamning fyrir Ísland, Noreg og Danmörku,“ segir Ágúst.

Einingabaðherbergin eru notuð víða og nefnir Ágúst stúdentagarða í Finnlandi sem dæmi og þaðan allt upp í fimm stjörnu hótel. Í stað þess að sitja yfir teikningum og hönnun baðherbergja, sem var meðal þess sem Ágúst fékkst við hjá vinnuveitanda sínum í Grimstad, einbeitir hann sér nú að daglegum rekstri umboðs síns og hönnunarfundum með arkitektum. Eftir það taki verksmiðjurnar svo við boltanum.

Kaldir snobbaðir leiðindapjakkar

„Við tökum bara á móti teikningum frá arkitektum, baðherbergin eru smíðuð eftir þeirra kröfum og hægt að hafa þau hvernig sem fólk vill, þríhyrningslaga þess vegna. Þetta sendum við svo með Norrænu og afhendum á Íslandi, á byggingarstað, þar sem þetta er híft inn í húsin og er þar með úr okkar ábyrgð,“ útskýrir Ágúst af ferðalagi hins dæmigerða baðherbergis um Norðurlöndin og á sinn stað.

Viðskiptavinir velja sér útlitið og segir Ágúst í raun ímyndunaraflið …
Viðskiptavinir velja sér útlitið og segir Ágúst í raun ímyndunaraflið eitt setja þar mörkin. Viltu þríhyrningslaga baðherbergi? Ljósmynd/Aðsend

Fátt er meira freistandi en að draga upplýsingar um frumupplifun Íslendinga erlendis fram í dagsljósið. Fyrstu vikur og mánuðir, þessi oft fálmkenndi tími sem er skelfing í upplifun en góður í minningu. Bara að læra á nýtt almenningssamgöngukerfi getur verið þrautin þyngri. Þegar sá er hér skrifar var við nám í Helsinki fyrir margt löngu brann þar spurning sem ekki var auðsvarað: Hvar kaupir maður herðatré í Finnlandi? Hvað segir Ágúst af norsku samfélagi hinna fyrstu daga?

„Ég flutti náttúrulega á Jæren,“ svarar Ágúst og vísar til þess sögulega héraðs í Rogaland-fylki sem heitir Jaðar í konungasögum Snorra Sturlusonar. „Mállýskan þar er mjög skrýtin og mjög erfið. Margir á svæðinu neita að tala ensku. Fyrstu kynni mín af Norðmönnum á þessu svæði voru mjög slæm.

Mér fannst þeir kaldir, mér fannst þeir hálfgerðir leiðindapjakkar, mér fannst þeir snobbaðir og mér fannst þetta vera samfélag þar sem allir þurftu að klaga hver annan. Ef einhver lagði bílnum með eitt dekk á línunni þá var bara hringt á lögregluna og klagað,“ segir Ágúst frá og er mikið niðri fyrir á meðan hann lýsir frumkynnum sínum af hinum innfæddu.

Eins og dagur og nótt

Hann segir þó hafa kveðið við nýjan tón þegar hann flutti til Suður-Noregs, þar hafi verið tekið á móti nýju íbúunum með blómum, fólk almennt boðið góðan daginn og andrúmsloftið verið á allan hátt annað en á Jaðri þar sem þó bjó ekki minni höfðingi en Erlingur Skjálgsson sem Snorri segir af. En þar sem Erlingur bjó fyrir mörgum öldum er reyndar kominn flugvöllur núna.

Ágúst kann vel við sig í Grimstad sem er skammt …
Ágúst kann vel við sig í Grimstad sem er skammt frá Kristiansand og hinni annáluðu „norsku rívíeru“ Sandefjord. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var bara eins og svart og hvítt, mjög mikill munur á fólki þó svo vegalengdin sé ekki mikil,“ segir Ágúst sem kveðst hafa öðlast nýtt líf á svæðinu kringum Kristiansand. Honum hafi verið borgið.

Ágúst flutti út með eiginkonu sinni og dæturnar tvær ungar, tveggja og sex ára á þeim tíma, en þær Gabríela Rós og Elfa Sól Ágústsdætur eru nú annars vegar í 9. bekk og hins vegar í framhaldsskóla og una hag sínum vel í ranni frændþjóðarinnar.

Þau hjónin skildu svo fyrir tveimur árum en búa þó bæði í Noregi. „Stelpurnar líta bara á sig sem norskar nú orðið og þeim hefur gengið mjög vel hér, þær hafa náttúrulega báðar verið í norska skólakerfinu alveg frá upphafi, eða nánast, og við pössum að tala íslensku á heimilinu svo þær tapi henni ekki niður og geti talað við ömmu og afa á Íslandi og fleiri,“ segir Ágúst.

Stórþrífast eins og Norðmenn segja

Hann ferðast töluvert til Íslands vegna baðherbergja sinna en ferðunum hefur þó fækkað hin síðari ár. „Hérna fer mjög vel um okkur, það er ekki hægt að segja annað, eins og Norðmennirnir taka til orða stórþrífumst við hérna og ég sé mig ekki flytja neitt á næstunni. Ég er náttúrulega með mitt fyrirtæki hér í Grimstad og konan mín fyrrverandi býr hérna líka.

Stelpurnar eiga líklega eftir að fara í háskóla til Óslóar eða Bergen, maður veit það ekki, en ég sé ekki annað en að maður verði hér,“ segir baðherbergjafrömuðurinn Ágúst Ágústsson sem fyrir löngu er orðinn hag- og heimavanur í Suður-Noregi eftir þrettán ár sem byrjuðu í skurði á Sola – þar sem höfðinginn Erlingur Skjálgsson bjó á sínum tíma. „Öllum kom hann til nokkurs þroska,“ eins og Snorri gamli skrifaði um Erling.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert