Frekari að­gerðir í 29 sveitar­fé­lögum sam­þykktar

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Félagar BSRB hafa samþykkt frekari verkfallsaðgerðir í 29 sveitarfélögum. Atkvæðagreiðslu vegna kjaradeilu BSRB við sveitarfélög landsins lauk klukkan 11 í dag. Í öllum tilfellum voru verkfallsaðgerðirnar samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta. Atkvæðagreiðsla stendur enn yfir í Garðabæ en henni lýkur á hádegi á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB. Hér að neðan má sjá lista yfir sveitarfélögin sem um ræðir. Aðgerðirnar ná til dæmis til starfsfólks leikskóla, sundlauga- og íþróttamannvirkja, bæjarskrifstofa, hafna, þjónustumiðstöðva og áhaldahúsa. 

Mismunandi verður þó hvenær ákveðnir hópar innan sveitarfélaga munu leggja niður störf. Verkfall hjá sundlaugum og íþróttamannvirkjum um allt land sé ótímabundið og hefjist 5. júní næstkomandi. Verkfall sem nær til leikskóla, grunnskóla og frístundarmiðstöðva var í dag framlengt til 5. júlí.

Sundlaugar lokaðar í sumar 

„Það er að fær­ast auk­inn skriðþungi í aðgerðirn­ar viku eft­ir viku og eru al­veg áformaðar al­veg fram í júlí. Svo eru sund­laug­ar og íþrótta­mann­virki að fara í ótíma­bundið verkfall. Sundlaugar gætu þannig jafnvel þurft að loka í allt sumar ef ekki nást samningar,“ seg­ir Freyja Stein­gríms­dótt­ir, sam­skipta­full­trúi BSRB í sam­tali við mbl.is. Von­andi þurfi þó ekki að koma til þess. Þá seg­ist hún reyna að vera bjart­sýn en samn­ings­vilji sveit­ar­fé­laga sé lít­ill. 

Verkföll hófust á mánudag í leikskólum, grunnskólum og frístundarmiðstöðvum í Kópavogi, Garðabæ, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi en á mánudag bætast við sex til viðbótar og heldur sú þróun svo áfram. 

Undanþágubeiðnir teknar fyrir um helgina

Haft er eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB þar sem hún segir niðurstöðuna endurspegla samstöðuna sem ríki meðal félaga. 

Það er mikil ólga í hópnum sem skilur ekki sinnuleysi bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúa sinna og upplifir það sem virðingarleysi gagnvart störfum þeirra. Það stefnir því í mjög umfangsmiklar verkfallsaðgerðir sem munu hafa víðtæk áhrif á starfsemi sveitarfélaga.“

Hvað undanþágubeiðnir varðar mun undanþágunefnd koma saman til þess að taka undanþágur fyrir um helgina. Freyja segir nefndina nú vera að safna saman beiðnum. 

  • Akranes
  • Akureyri
  • Árborg
  • Bláskógarbyggð
  • Borgarbyggð
  • Dalvíkurbyggð
  • Fjallabyggð
  • Grindavík
  • Grímsnes- og Grafningshreppur
  • Grundafjarðarbær
  • Hafnarfjörður
  • Hveragerði
  • Ísafjarðarbær
  • Kópavogur
  • Mosfellsbær
  • Mýrdalshreppur
  • Norðurþing
  • Rangárþing Eystra
  • Rangárþing Ytra
  • Reykjanesbær
  • Seltjarnarnes
  • Skagafjörður
  • Snæfellsbær
  • Stykkishólmur
  • Suðurnesjabær
  • Vestmanneyjar
  • Vogar
  • Ölfus 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert