Hiti fór í dag yfir 20 gráður hérlendis í fyrsta skipti á árinu. Samkvæmt Veðurstofu Íslands mældist hiti rúmar 20 gráður á nokkrum stöðum á Austurlandi um hádegisbilið í dag, en veðurathugunarstöðvarnar við Egilsstaðaflugvöll, Hallormsstað og Bakkagerði mældu allar hita rétt yfir 20 gráðum.
Hæstur mældist hiti við Egilsstaðaflugvöll en þar var hiti 20,6°C á tímapunkti. Á Hallormsstað mældust 20,3°C og á Bakkagerði 20,2°C.
Ekki njóta allir landshlutar sömu veðursældar, en á sama tíma og þessar hitatölur sáust á Austurlandi tóku gildi gular viðvaranir á Breiðafirði, Vestfjörðum, á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Ástæða viðvarananna er suðvestan hvassviðri og munu allar viðvaranirnar falla úr gildi á morgun, laugardag. Á sunnudaginn er mestu hvassviðri á landinu spáð á Austurlandi, en að öðru leyti er þokkalegu veðri spáð þar um helgina.