Í varðhald eftir ólöglega dvöl í þrjú ár

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir manninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem var synjað um vernd fyrir rúmlega þremur árum og hefur síðan dvalið ólöglega hér á landi og starfað án atvinnuleyfis. Átti að vísa manninum úr landi en þá lét hann sig hverfa og hafði lögregla ekki upp á honum fyrr en haft var afskipti af ökumanni bifreiðar þar sem maðurinn var farþegi í síðustu viku.

Í úrskurði Landsréttar er tekið undir málatilbúnað lögreglunnar og niðurstöðu héraðsdóms um að miklar líkur séu taldar á því að maðurinn reyni aftur að hverfa fyrir flutning verði vægara úrræði en gæsluvarðhaldi beitt.

Hafnað um vernd 2020

Er í úrskurði héraðsdóms rifjað upp að maðurinn hafi sótt um vernd í október 2019, en verið synjað af Útlendingastofnun eftir viðtöl í febrúar 2020. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá niðurstöðu svo í maí 2020 og meðan maðurinn beið flutnings lét hann sig hverfa. Hefur hann verið eftirlýstur af lögreglu síðan í maí 2021.

Hann sótti hins vegar um vernd í annað sinn í október 2022, en þá var flutningur aftur settur í framkvæmd en maðurinn lét sig aftur hverfa. Tilraunir lögreglu til að hafa upp á honum höfðu í kjölfarið ekki borið árangur þangað til síðasta laugardag þegar lögreglan hafði afskipti af ökumanni bifreiðar þar sem maðurinn var farþegi.

Framvísaði skilríkjum annars manns

Fram kemur í úrskurðinum að maðurinn og lögreglan hafi átt í samskiptum með aðstoð Google translate vegna tungumálaörðugleika, en maðurinn skrifaði nafn og kennitölu á blað sem gaf enga svörun í nafnaskrá. Þá framvísaði hann debetkorti með nafni og kennitölu annars manns. Sagðist hann ekki getað svarað með heimilisfang og að hann vissi ekki hvar vegabréfið sitt væri.

Í skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa dvalist ólöglega hérlendis í þrjú ár og að hafa unnið án atvinnuleyfa og framvísað skilríkjum annars manns í blekkingarskyni. Þá hafi hann einnig brennt ferðaskilríki sín.

Önnur úrræði ekki tæk

Farm kemur að lögreglan hafi sent beiðni til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra um flutning og samþykktu dómstólar gæsluvarðhald yfir manninum til 26. maí. Tekið er fram að vægari úrræði eins og farbann hafi ekki þótt tæk í stöðunni í ljósi sögu mannsins og að gæsluvarðhald væri talið nauðsynlegt til að tryggja að hann hlypist ekki á brott og hægt yrði að vísa honum úr landi án vandkvæða .

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert