Þrátt fyrir að gular viðvaranir hafi tekið gildi á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra á milli 11 til 15 í dag, er von á sæmilega mildu veðurfari á Akureyri, Norðausturlandi og um helgina. Hlýjast verður á Austurlandi, en í dag hefur hiti mælst allt að 18 stig á Hallormsstað og 17 stig á Egilsstöðum.
Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands mega íbúar höfuðborgarsvæðisins búast við leiðindaveðri um helgina og er ekki von á að sólin láti sjá sig á næstu dögum.
Þá sé einnig varasamt að taka langtímaveðurspám of alvarlega sem boði hlýtt sumar. Líkt og greint var frá í vikunni spáði Evrópska reiknimiðstöðin fyrir að meðalhiti sumarsins verði markvert hár samkvæmt nýjustu tölum þeirra.
Veðurfræðingur segir þó að enn geti margt breyst og að enn hafi ekki verið sýnt fram á áreiðanleika langtímaspánna.
Í höfuðborginni og á landinu sunnan-og vestanverðu verður hitastig talsvert svalara en á Norður-og Austurlandi, en hiti mun fara niður í 4 stig á laugardag og því mun fylgja rigning, súld og reglulegar skúrir.
Hvassast verður norðvestanlands framan af helgi, en á sunnudag verður hvassast á Austurlandi og má gera ráð fyrir suðvestanátt á bilinu 8-18 m/s.