Björgunarsveitum í Ölfusi barst beiðni um aðstoð í gær vegna ferðalangs sem hafði gengið inn í Reykjadal.
Á leið út úr dalnum fór viðkomandi að líða illa og upplifa máttleysi. Missti hann í kjölfarið meðvitund, eða var með skerta meðvitund, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg.
Björgunarsveitir fóru upp gönguleiðina frá Hveragerði, sem og akandi upp á Hellisheiði og gengu þaðan niður Reykjadal. Um 40 mínútum eftir að útkallið barst, eða um kl. 17:40, voru björgunarsveitir komnar að viðkomandi, sem hlaut aðhlynningu og var svo fluttur niður í sjúkrabíl.
Rétt upp úr hálfátta í gærkvöldi var óskað eftir aðstoð björgunarsveita vegna tveggja göngumanna á Hafnarfjalli sem voru orðnir kaldir og treystu sér ekki lengra.
Björgunarsveitir frá Akranesi, Borgarnesi og Borgarfirði fóru til aðstoðar og gengu upp Hafnarfjall norðanvert. Nokkurn tíma tók að komast að fólkinu, en svartaþoka var á leitarsvæðinu. Fólkið var þokkalega búið til útiveru, en veðrið á svæðinu var erfitt, slagviðri og skyggni lítið.
Rétt fyrir klukkan 23 var komið að fólkinu. Skyggnið var aftur á móti svo lítið að fólkið þurfti að flauta hátt í flautu sem það var með, til að björgunarfólk hitti á það í þokunni.
Björgunarfólk gat gefið þeim heitt að drekka og einhverja næringu. Lagt var af stað til móts við annað björgunarfólk, sem meðal annars var á leið á staðinn á sexhjólum. Rétt fyrir miðnætti var hægt að koma fólkinu á sexhjól sem flutti það niður. Aðgerðinni lauk um eittleytið í nótt.
Í gærkvöldi barst einnig útkall til björgunarsveitar í Stykkishólmi vegna elds í báts rétt utan við bæinn.
Þar hafði eldur orðið laus, sennilega frammi í lúkar. Skipverji réð ekki við hann og yfirgaf bátinn. Honum var komið til bjargar af nærstöddum. Báturinn varð fljótt alelda og rak nánast upp í fjöru suðvestan Stykkishólms þar sem slökkvilið frá Stykkishólmi gat barist við eldinn frá landi.