Meirihluti landsmanna andvígur lækkun kosningaaldurs

Meirihluti landsmanna vill ekki lækka kosningaaldurinn.
Meirihluti landsmanna vill ekki lækka kosningaaldurinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstöður nýs Þjóðarpúls Gallup sýna að mikill meirihluti landsmanna, eða 63%, er andvígur því að lækka kosningaaldur úr 18 árum í 16 ár. Tæplega fjórðungur svarenda skoðanakönnunarinnar er alfarið andvígur en aðeins 18% svarenda hlynnt lækkuninni. Fleiri eru hvorki hlynntir né andvígir, alls 19%.

Yngra fólk er hlynntara breytingunni á kosningaaldri en eldra. Alls 36% fullorðinna undir þrítugu eru hlynnt lækkuninni, á meðan aðeins 8% fólks sem er sextugt eða eldra eru sömu skoðunar. Bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni er mikill meirihluti andvígur breytingunni. Á höfuðborgarsvæðinu er þó hlutfall hlynntra stærra en hlutfall þeirra sem eru hvorki hlynntir né andvígir, ólíkt því sem er á landsbyggðinni, þar sem fleiri eru hlutlausir en hlynntir.

Fólk með lægri fjölskyldutekjur er almennt hlynntara lækkuninni og reynast kjósendur Viðreisnar og Sósíalistaflokksins hlynntastir breytingunni allra kjósenda. Kjósendur Miðflokksins eru áberandi andvígastir breytingunni, en alls 91% þeirra mældust andvígir henni. Aðeins 6% kjósenda Miðflokksins eru hlynnt lækkuninni og 3% hvorki hlynnt né andvíg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert