„Við vildum búa til markaðsglugga fyrir íslenska nýsköpun og gefa bæði frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum, en líka stórfyrirtækjum, tækifæri til að sýna hvað þau eru að gera á nýstárlegan og frumlegan hátt,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Iceland Innovation Week sem hefst á mánudaginn 22. maí í næstu viku og stendur fram á föstudaginn 26. maí.
„Það sem er spennandi við þessa hátíð er hvað hún sýnir mikla breidd. Við erum með frumkvöðla og sprotafyrirtæki samhliða rótgrónum stórfyrirtækjum sem munu koma til með að halda ýmis konar nýsköpunartengda viðburði. Þannig verða yfir 70 viðburðir á dagskrá hátíðarinnar í næstu viku; vetnisgrill, hakkaþon, vinnusmiðjur, frumkvöðlasögur, opin hús og allt þar á milli. „Við líkjum oft hátíðinni við Iceland Airwaves þar sem sérstaðan felst einmitt í því að geta séð þá sem koma fram í nánara umhverfi en á sambærilegum hátíðum erlendis.
Aðaldagskrá hátíðarinnar hefst á þriðjudag í Grósku, miðstöð nýsköpunar í Vatnsmýri. „Þar verður heill dagur af fyrirlestrum og pallborðsumræðum, erlendir fyrirlesarar í bland við íslenska frumkvöðla,“ segir Melkorka og bætir við að ungir frumkvöðlar og ólíkar raddir fái gott pláss í ár. „Frumkvöðullinn Safa Jemai mun t.d. ræða við Guðna forseta um tungumál og gervigreind, sjálfbærnistýra Oatly mun fjalla um strauma og stefnur í matvælanýsköpun og aðilar úr úkraínsku sprotasenunni ásamt íslenskum þingmönnum munu ræða um nýsköpun á umbrotatímum.
Á miðvikudaginn færist dagskráin yfir í Hörpu með loftlagsviðburðinum Ok, bye. „Þar leiðum við saman þekkta frumkvöðla á sviði loftlagsmála, fjárfesta, stjórnmálafólk og listamenn í ótrúlegu sjónarspili með áherslu á lausnir gegn loftslagsvánni. Ætlunin er að festa Ísland í sessi sem miðpunkt loftslagsumræðna, út frá sjónarhorni frumkvöðla og nýsköpunar” Um kvöldið verður svo verðlaunaafhendingin Nordic Startup Awards. „Þessi verðlaun eru eins og Óskarinn fyrir norrænu sprotasenuna og hingað koma yfir 200 erlendir gestir að keppa um titla líkt og frumkvöðul ársins.“