Sóttu rangan varahlut

Áætlað er að flogið verði með farþegana sem beðið hafa …
Áætlað er að flogið verði með farþegana sem beðið hafa í rúman einn og hálfan sólarhring í Glasgow til Íslands á miðnætti í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástæða mikillar seinkunar á flugi Icelandair frá Glasgow í Skotlandi til Keflavíkur er vegna þess að varahlutur sem sendur var út vegna bilunar flugvélarinnar reyndist rangur.

„Það varð bilun á flugvél og það þurfti varahlut. Svo kom í ljós þegar varahluturinn var kominn að það var því miður ekki réttur varahlutur. Núna er önnur flugvél á leiðinni til Glasgow sem mun flytja farþegana heim,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Málið hefur vakið athygli í Skotlandi og hefur breska ríkisútvarpið meðal annars tekið það til umfjöllunar.

Erfið staða

Ætlunin er að flogið verði með farþegana til Íslands frá Glasgow í kringum miðnætti. Um borð í flugvélinni sem er nú á leiðinni til Skotlands er réttur varahlutur fyrir biluðu flugvélina. 

„Þetta er mjög erfið staða og leiðinlegt að þetta hafi komið upp. Þetta er auðvitað atvik sem við viljum ekki sjá, að farþegar lendi í svona langri seinkun. Því miður urðu mistök sem komu í ljós of seint,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert