Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar þjófnað á dælulykli sem var í kjölfarið notaður til að taka bensín. Ekki er vitað um deili á þjófinum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu í dag.
Þá var tilkynnt um slys þar sem kona hafði dottið og kenndi sér meiðsla í öxl og var flutt með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans til frekari skoðunar.
Einn var handtekinn fyrir að brjóta rúðu í miðbænum og gistir hann fangageymslu sökum ástands.
Annar var handtekinn fyrir minniháttar líkamsárás í Hafnarfirði og gistir hann sömuleiðis í fangageymslu í annarlegu ástandi.
Ökumaður var stöðvaður í Hafnarfirði vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna en hann var laus að lokinni blóðsýnatöku.