43 af 46 aðildarríkjum Evrópuráðsins samþykktu Reykjavíkuryfirlýsinguna. Þrjú aðildarríki Evrópuráðsins samþykktu hana ekki í heild sinni eða að hluta.
Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins, við mbl.is.
Um er að ræða Serbíu, Armeníu og Aserbaídsjan.
Leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins samþykktu yfirlýsinguna samhljóða án atkvæðagreiðslu á fundinum í Hörpu og er hún því kennd við Reykjavík. Stuðningur við Úkraínu, ályktun í þágu úkraínskra barna, og skuldbinding ríkjanna við mannréttindi, lýðræði og réttarríkið eru megináherslur yfirlýsingarinnar.
Sömu ríki undirrituðu ekki heldur yfirlýsingu um tjónaskrá Evrópuráðsins vegna innrásar Rússa í Úkraínu auk ríkjanna Bosníu, Tyrklands og Ungverjalands. Með tjónaskránni er ætlunin að skrásetja þann stríðsskaða sem Rússar hafa valdið með innrásinni í Úkraínu.