Vilja ekki sjá endurvinnslustöð við kirkjugarðinn

Orri Vign­ir Hlöðvers­son, formaður bæj­ar­ráðs Kópa­vogs­bæj­ar og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri …
Orri Vign­ir Hlöðvers­son, formaður bæj­ar­ráðs Kópa­vogs­bæj­ar og Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri í Kópavogi, virðast lítið spennt fyrir því að ný endurvinnslustöð Sorpu verði nálægt Kópavogskirkjugarði og jafnvel í bæjarfélaginu yfir höfuð. Samsett mynd

Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, kveðst vera mjög mótfallinn tillögum stýrihóps um nýja endurvinnslustöð Sorpu við kirkjugarðinn við Lindakirkju. Hann segir að stöðin gæti valdið ónæði fyrir íbúa og haft hugsanlega einhver mengunaráhrif

„Skipulagsvaldið er alltaf bæjarins,“ segir Orri Vignir í samtali við mbl.is. „Ég er mótfallin þessari staðsetningu. Hún er ekki góð og við verðum að finna hentugri staðsetningu fyrir íbúa.“

Í skýrslu stýrihóps um staðarval fyrir nýja endurvinnslustöð, sem kæmi í stað stöðvarinnar á Dalvegi sem á að loka þar sem hún var ekki í sam­ræmi við gild­andi aðal­skipu­lag, koma fram fremur umdeildar niðurstöður. Sú hugmynd er efst á blaði að minnka svæði sem tekið hefur verið frá fyrir kirkjugarðinn við Lindakirkju um einn hektara til að koma fyrir nýrri endurvinnslustöð við Arnarnesveg og jafnframt að Garðabær leggi til stækkun á væntanlegum kirkjugarði í Rjúpnadal til að vega upp á móti við Lindakirkjugarðs.

Starfshópurinn hefur engin völd í málinu

Skýrsla starfshóps hefur verið send til umfjöllunar hjá Kópavogsbæ og verður tekin fyrir í skipulagsráði á næstu dögum. Orri efast sterklega um það að tillögur stýrihópsins verði samþykkt af bæjarstjórn.

„Við í meirihlutanum í bæjarstjórn Kópavogs teljum að þessi staðsetning sé ekki góð,“ segir hann. „Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að starfshópurinn hefur engin völd í málinu. Skipulagsvaldið er hjá Kópavogsbæ og við munum taka á málunum þegar það kemur inn með formlegum hætti hjá okkur.“

Orri segir að slík endurvinnslustöð sé á engan vegin hentug þar sem hún er inni í íbúahverfi og geti valdið ónæði fyrir íbúa og haft hugsanlega einhver mengunaráhrif í för með sér.

Hópurinn var einhuga um það að þetta væri besta mögulega …
Hópurinn var einhuga um það að þetta væri besta mögulega lausnin í stöðunni. Skjáskot/Sorpa

Ekkert sjálfgefið að stöðin verði innan bæjarmarka

„Það er ekkert sjálfgefið að þessi nýja stöð eigi að vera innan bæjarmarka Kópavogs en ef að það finnst góð staðsetning innan bæjarmarka er það eitthvað sem við myndum vilja ræða,“ segir hann.

Í skýrslunni koma fram niðurstöður úr könnun meðal íbúa Kópavogs. 86% svarenda sögðust velja stöðina við Dalveg umfram aðrar stöðvar en 60% sögðust fara á endurvinnslustöð Sorpu við Dalveg að minnsta kosti einu sinni í mánuði.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar og oddviti Sjálfstæðismanna í bænum, tjáði sig einnig um málið á Facebook í gær. Þar minnti hún á að verið sé að fjalla um tillögu starfshóps Sorpu en ekki tillögu bæjarstjórnar Kópavogs. Tveir fulltrúar frá Kópavogi fengu þó sæti í stýrihópnum.

Auk þess segir hún að meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs telji að aðrir staðir séu ákjósanlegri fyrir starfsemi Sorpu, til dæmis í öðrum nágrannasveitarfélögum.

Fulltrúar Kópavogsbæjar með í stýrihópnum

Lagt var til að bæði Kópavogur og Garðabær myndu tilnefna fulltrúa í stýrihópinn. Fulltrúar Garðabæjar voru Guðbjörg Brá Gísladóttir og Arinbjörn Vilhjálmsson. Fulltrúar Kópavogs voru Birkir Rútsson og Auður Kristinsdóttir

Hópurinn var einhuga um það að þetta væri besta mögulega lausnin í stöðunni. Með því að koma fyrir nýrri og afkastameiri stöð á þessum stað þá mætti loka stöðinni við Jafnasel og í framtíðinni yrðu því fjórar endurvinnslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu í stað sex í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert