109 nemendur útskrifuðust úr FÁ

Útskrift var haldin í gær þar sem 109 nemendur útskrifuðust
Útskrift var haldin í gær þar sem 109 nemendur útskrifuðust Ljósmynd/Fjölbrautaskólinn við Ármúla

Útskriftarathöfn Fjölbrautaskólans við Ármúla var haldin í dag. 109 nemendur útskrifuðust úr skólanum og dúx skólans var með ágætiseinkunn upp á 9,2.

46 nemendur útskrifuðust af heilbrigðisbraut, tuttugu af sjúkraliðabraut, þrettán af heilsunuddbraut, níu af tanntæknabraut, tveir af lyfjatæknibraut og tveir af heilbrigðisritarabraut.

Tveir stúdentar útskrifuðust einnig af nýsköpunar- og listabraut.

Tólf útskrifuðust af félagsfræðibraut, fjórir af íþrótta- og heilbrigðisbraut, fimm af náttúrufræðibraut og 24 af opinni braut. Fjórir útskrifuðust af viðskipta- og hagfræðibraut, þar á meðal dúx skólans Óli Þorbjörn Guðbjartsson.

Nýútskrifaðir stúdentar úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla
Nýútskrifaðir stúdentar úr Fjölbrautaskólanum við Ármúla Ljósmynd/Aðsend

Flóttamannavandi vegna uppskerubrests

Í ræðu sinni ræddi Magnús Ingvason skólameistari um „sívaxandi flóttamannavanda sem má rekja til uppskerubrests vegna loftslagsbreytinga og hlýnunar jarðar og sölu drápstækja til ýmissa skúrka víða um heim, mest í boði hinna velmegandi vestrænna ríkja sem annars vegar standa fyrir mestri mengun og hins vegar á hagvaxtardrifinni vopnasölu“.

Í lok ræðu sinnar sló hann á léttari strengi og hvatti útskriftarnemendur til þess að gleyma ekki markmiði lífsins, sem væri að vera ætíð hamingjusöm.

Kristrún Birgisdóttir aðstoðarskólameistari ávarpaði einnig stúdenta á athöfninni þar sem hún sagði:

„Einhver ykkar upplifa ef til vill tilfinningu um frelsi á þessum tímamótum en spurningin er hvort það eru ekki frekar þið, aðstandendur, sem eruð að fá frelsið núna þegar þau sem hér eru að útskrifast hafa náð þessum áfanga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka