Bílastæðum Reykjavíkur fækkað um 300 á árinu

Óvissa við mat á bílastæðum er mikil, að sögn samgöngustjóra.
Óvissa við mat á bílastæðum er mikil, að sögn samgöngustjóra. mbl.is

Bílastæðum á borgarlandi Reykjavíkur hefur fækkað um 300 það sem af er ári en þau eru rétt um 32.000.

Þetta kemur fram í svari Guðbjörgar Lilju Erlendsdóttur samgöngustjóra Reykjavíkur við fyrirspurn Vinstri grænna um fækkun bílastæða sem lagt var fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar í vikunni.

Þar segir að ekki sé haldið sérstaklega utan um þann fjölda bílastæða sem er fækkað um á hverju ári né að gerð sé áætlun um fækkun bílastæða.

Einnig er tekið er fram að lauslega sé haldið utan um fjölda bílastæða í borginni og óvissa við mat á bílastæðum sé því mikil.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem eru aðgengilegar voru bílastæði á borgarlandi í apríl 2023 rétt um 32 þúsund og hefur þeim fækkað það sem af er ári um 0,9%, samanborið við 1. desember 2022 þegar þau voru um 300 fleiri,“ segir í svarinu.

Megi rekja til lóðabreytinga við Landspítalann

Tekið er fram að fækkunina megi að stærstum hluta rekja til breytinga á lóðamörkum við Landspítalann þar sem stæði sem áður voru á borgarlandi séu nú innan lóðar spítalans.

„Fjöldi stæða á borgarlandi stendur í stað sé miðað við 1. desember 2021. En á sama tíma hefur íbúum og íbúðum í borginni fjölgað um u.þ.b. 3% og stæðum innan lóða fjölgað um 1,4%. Það er að segja bílastæðum í borginni, hvort sem er innan lóða eða utan hefur ekki fjölgað jafn mikið og íbúum,“ segir í svari samgöngustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert