Laust fyrir klukkan 13 í dag var bifreið ekið á tvær kyrrstæðar bifreiðar við Fríkirkjuveg. Að því loknu ók ökumaðurinn á brott, en lögregla aflaði upplýsinga um viðkomandi með aðstoð annarra vegfarenda.
Töluvert eignatjón varð við ákeyrsluna, að því er segir í dagbók lögreglu.
Skömmu síðar varð umferðarslys á Dalvegi þar sem tveir slösuðust minniháttar. Tildrög slyssins þykja ekki ljós.
Annar árekstur varð svo á Skemmuvegi í Kópavogi rétt fyrir klukkan 15. Ökumenn voru ekki sammála um hvernig hann hefði komið til og kölluðu því til lögreglu.
Engan mun hafa sakað en önnur bifreiðin var þó óökufær.
Að lokum varð árekstur á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði um klukkan 15.30, sem reyndist að sögn lögreglu minniháttar.
Þrír voru auk þessa teknir fyrir hraðakstur.
Rétt fyrir klukkan 6 í morgun var bifreið stöðvuð á Suðurlandsvegi við embættismörk lögreglunnar, eftir að hafa mælst á 130 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90km/klst.
Laust fyrir klukkan 13.30 var svo bifreið stöðvuð á Kringlumýrarbraut í Fossvogi eftir að hafa mælst á 106 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 80km/klst.
Um hálftíma síðar var bifreið stöðvuð á sama vegi, eftir að hafa mælst á 118 kílómetra hraða.